Innlent

Forsetaframbjóðandi telur Ólaf Ragnar hafa farið út af sporinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson Vísir/Anton Brink
Forsetaframbjóðandinn Hrannar Pétursson telur Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, hafa farið út af sporinu þegar hann ávarpaði fjölmiðla eftir fund sinn með þáverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, á Bessastöðum í síðustu viku.

Hrannar segir ákvörðun forsetans að hafna þáverandi forsætisráðherra um undirskrift á þingrofsskjal hafa verið skiljanlega í ljósi þess að Ólafur Ragnar taldi Sigmund Davíð umboðslausan.

Hrannar Pétursson.
„Það var eðlilegt að hann kannaði afstöðu annarra til þingrofs og sá yfirlýsti vilji hans, að halda forsetaembættinu fyrir utan pólitískar deilur, er skiljanlegur,“ segir Hrannar í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu.

Hann segir forsetann hins vegar hafa farið út af sporinu með því að stilla sér upp gegnt blaðamönnum til að ræða málið þegar ýmis efnisatriði og framvinda var óljós.

„Það var hvorki skynsamlegt né nauðsynlegt, jafnvel þótt ráðherrann hefði á leiðinni til Bessastaða stuðað forsetann með stöðufærslu á Facebook. Forsetinn á ekki að standa í opinberu orðaskaki við nokkurn mann og með skyndifundi sínum með heimspressunni olli hann meira umróti en annars hefði orðið,“ segir Hrannar.

Hann segir það ekki vera hlutverk forsetans að uppfylla einstaka hagsmunatengdar óskir, hvorki sínar eigin né annarra.

„Hann á að veita Alþingi og ríkisstjórn aðhald og stuðla í leiðinni að samfélagslegu jafnvægi. Slíkt útheimtir bæði kjark til að taka ákvarðanir og styrk til að standast freistingar. Á hvoru tveggja reyndi í liðinni viku, þar sem sitjandi forseti stóðst annað prófið en féll á hinu,“ segir Hrannar sem áður hefur starfað sem fréttamaður, talsmaður Vodafone, upplýsingafulltrúi Íslenska álfélagsins og einnig tímabundið sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×