Innlent

Landstólpi ber kostnaðinn af hafnargarðsflutningunum samkvæmt samkomulagi við Minjastofnun

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Minjastofnun mun aftur á móti bera launakostnað vegna eftirlits stofnunarinnar með framkvæmdum.
Minjastofnun mun aftur á móti bera launakostnað vegna eftirlits stofnunarinnar með framkvæmdum. Vísir/GVA
Ríkið gerir ráð fyrir því að verktakafyrirtækið Landstólpi beri kostnaðinn við að taka niður hafnargarðinn frá 1928 á Austurhöfninni og setja hann upp aftur eftir að framkvæmdir við húsgrunn sem fyrirtækið er að láta byggja er búin. Þetta kemur fram í svari Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.

Í svarinu segir Sigrún að samkvæmt samkomulagi Minjastofnunar og Landstólpa sé fyrirtækinu veitt heimild til að taka hafnargarðinn tímabundið niður og endurhlaða samkvæmt skilyrðum í samkomulaginu. Samkomulagið gerir ráð fyrir að framkvæmdaaðilinn annist þessar framkvæmdir og ber hann því einnig þann kostnað sem þær hafa í för með sér,“ segir í svarinu. 

Minjastofnun mun aftur á móti bera launakostnað vegna eftirlits stofnunarinnar með framkvæmdum.

Talið er að kostnaðurinn við að flytja hafnargarðinn tímabundið af Austurhöfninni muni kosta um fimm hundruð milljónir, samkvæmt mati Landstólpa, en hann var friðaður samkvæmt ákvörðun Sigrúnar þegar hún gegndi tímabundið embættisskyldum forsætisráðherra. Áður hafði Minjastofnun skyndifriðað garðinn til þess að „tryggja að minjum verði ekki spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt“.

Fyrir liggur að Landstólpi ætlar að reyna að sækja þessa fjármuni til ríkisins. „Við munum sækja okkar rétt í þessu. Við teljum að hann sé alveg skýr í ljósi þess að þeir friðuðu garðinn sem er ekki 100 ára. Þannig að þetta endar á skattborgurum,“ sagði Gísli Steinar Gíslason, forstjóri Landstólpa, í samtali við Vísi í desember síðastliðnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×