Erlent

Krefst þess að lögregla láti af aðgerðum gegn „varnarlausum íbúum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Til harðra átaka hefur komið á milli lögreglu og íbúa í Katalóníu vegna kosninga um sjálfstæði héraðsins.
Til harðra átaka hefur komið á milli lögreglu og íbúa í Katalóníu vegna kosninga um sjálfstæði héraðsins. Vísir/afp
Borgarstjóri Barselóna, Ada Colau, segir 460 manns nú hafa særst í átökum milli lögreglu og íbúa í Katalóníu. Áður hafði verið greint frá því að 337 mótmælendur væru særðir en ástandið í spænska héraðinu er eldfimt í kjölfar kosninga um sjálfstæði Katalóníu. Colau krefst þess að lögregla láti tafarlaust af aðgerðum í héraðinu.

Yfirvöld á Spáni hafa heitið því að koma í veg fyrir kosninguna og hefur stjórnarskrárréttur Spánar sagt atkvæðagreiðsluna ólöglega. Til harðra átaka hefur komið á milli lögreglu og íbúa í Katalóníu en fjölmennar sveitir lögregluþjóna hafa verið sendar á staðinn.

Ada Colau, borgarstjóri Barselóna, á kjörstað í dag.Vísir/AFP
Ada Colau, borgarstjóri Barselóna, greindi frá því á Twitter-reikningi sínum nú síðdegis að tala særðra úr hópi mótmælenda í Katalóníu væri komin upp í 460. Þá hafði áður verið gefið út að 337 mótmælenda hefðu særst í átökum við lögreglu.

„Nú þegar eru yfir 460 manns særðir í Katalóníu. Sem borgarstjóri Barselóna krefst ég þess að tafarlaust lát verði á aðgerðum lögreglu gegn varnarlausum íbúunum,“ sagði í yfirlýsingu Colau.

Lögreglusveitir á vegum spænsku ríkisstjórnarinnar reyna nú allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að íbúar Katalóníu kjósi í sjálfstæðiskosningunum en lögregluþjónar í óeirðarbúningum hafa til að mynda skotið gúmmískotum að mótmælendum og barið þá með kylfum. Þá hafa kjörseðlar og kjörkassar verið gerðir upptækir á kjörstöðum víðsvegar um héraðið.

Sjá einnig: Börsungar skoruðu þrjú í þögninni

Sjálfstæði Katalóníu er mörgum íbúum héraðsins hjartans mál en þessi mynd var tekin á kjörstað í dag.Vísir/AFP
Í tilkynningu frá spænska innanríkisráðuneytinu í dag var greint frá því að 12 lögregluþjónar hefðu særst í átökunum og að þrír hefðu verið handteknir. Þá hefur 92 kjörstöðum verið lokað.

Júlia Graell, sem komið hafði á kjörstað til að kjósa, sagði í samtali við BBC að lögregluþjónar hefðu sparkað í fólk, „gamalt og ungt.“

„Í dag hef ég orðið vitni að verstu aðgerðum sem ríkisstjórn getur staðið að gegn sinni eigin þjóð.“


Tengdar fréttir

Átök í Katalóníu

Minnst ellefu lögregluþjónar og 337 mótmælendur eru særðir.

Mikil spenna á Spáni

Íbúar Katalóníu setja stefnuna á kjörklefa á morgun til að greiða atkvæði um sjálfstæði.

Börsungar skoruðu þrjú í þögninni

Barcelona er með fullt hús stiga eftir sjö umferðir í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir öruggan 3-0 sigur á Las Palmas á Nou Camp í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×