Erlent

Boðað til allsherjar mótmæla í Venesúela á morgun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maduro forseta hefur ítrekað verið mótmælt.
Maduro forseta hefur ítrekað verið mótmælt. vísir/epa
Ekkert lát er á mótmælahrinunni í Venesúela þar sem þess er krafist að Nicolas Maduro, forseti landsins, fari frá völdum. Stjórnarandstæðingar settu upp vegatálma í dag og boðuðu á sama tíma til allsherjarmótmæla á morgun. Á þriðja tug manna hafa látið lífið mótmælunum.

Mótmælendur hafa komið saman á götum úti um árabil en Maduro er sakaður um að hafa valdið bæði pólitískri og efnahagslegri kreppu í landinu og er hann sagður vanhæfur til þess að stjórna landinu. Venesúela var með ríkari þjóðum Suður-Ameríku en í dag er mikill skortur á öllum helstu nauðsynjavörum. Þá hefur óðaverðbólga gert gjaldmiðil landsins nánast verðlausan.

Nýjustu mótmælin brutust út eftir að Maduro tilkynnti um breytingar á stjórnarskrá landsins sem kveða á um að stjórnlagaþingi verði komið á fót. Þannig verði stjórnarskráin færð úr höndum þingsins þar sem stjórnarandstaðan er í meirihluta.

Maduro upplýsti um hugmyndir sínar á fjöldafundi með stuðningsmönnum sínum í gær. Samkvæmt tillögum hans yrði stjórnlagaþingið skipað 500 manns og þeim falið að endurskrifa stjórnarskrána.

Þessar hugmyndir féllu hins vegar í grýttan jarðveg og forsetinn sakaður um einræðistilburði. Mikil mótmæli brutust út og hafa öryggissveitir lögreglu meðal annars þurft að beita táragasi á fólkið, en alls hafa 28 látið lífið í átökum síðustu vikna.

Búast má við miklum mótmælum á morgun en stjórnarandstæðingar hafa boðað til allsherjarmótmæla, eða „mega protests" líkt og þeir orða það.

Maduro hefur ítrekað upplýst um að hann muni sitja út kjörtímabilið og hafi ekki í hyggju að segja af sér embætti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×