Erlent

Segir Tyrkland vera að fjarlægjast Evrópu

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Vísir/AFP
Tyrkland hefur undir stjórn Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta snúið baki við Evrópu og aðild Tyrklands að Evrópusambandinu er sem stendur ekki á dagskrá.

Þetta segir Johannes Hahn, stækkunarmálastjóri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að því er fram kemur í frétt Reuters.

Tengsl Evrópusambandsins og Tyrklands hafa versnað til muna á síðustu misserum og kröfðust hluti þingmanna á Evrópuþinginu því nýverið að Evrópusambandið myndi formlega slíta viðræðum sínum við Tyrkland um ESB-aðild vegna einræðistilburða Tyrklandsstjórnar.

„Áhersla sambands okkar verður að vera eitthvað annað,“ sagði Hahn eftir fund utanríkisráðherra ESB-ríkja á Möltu þar sem Þjóðverjar og Frakkar þrýstu á að unnið verði að breyttum samskiptum Tyrklands og ESB á sviði viðskipta og öryggismála.

„Það er ekki til nein tyrknesk útgáfa af lýðræði, það er aðeins til ein tegund lýðræðis. Íbúar Tyrklands eiga sama rétt að búa við sama frelsi og íbúar Evrópu,“ segir Hahn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×