Viðskipti innlent

Hækkun húsnæðisverðs tekur fram úr hækkun leiguverðs

Sæunn Gísladóttir skrifar
Una Steinsdóttir segir það hafa komið á óvart hversu stór og fyrirferðarmikill hópur fyrstu kaupendur eru.
Una Steinsdóttir segir það hafa komið á óvart hversu stór og fyrirferðarmikill hópur fyrstu kaupendur eru. Vísir/Anton Brink
Húsnæðisverð hefur hækkað umtalsvert umfram leiguverð á síðastliðnu ári. Íbúðaverð hækkaði um 19 prósent að raungildi á tímabilinu mars 2016 til mars 2017, á sama tíma hækkaði leiga um 10,3 prósent. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Reykjavík Economics um húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu sem unnin var fyrir Íslandsbanka. Hún var kynnt að hluta til á fræðslufundi Íslandsbanka um húsnæðismarkaðinn í síðustu viku. Skýrslan verður birt í lok vikunnar.

Ef ástandið á leigumarkaði er skoðað kemur í ljós að leigusamningum hefur sömuleiðis fækkað á tímabilinu. Leiguverð hækkaði um 68,1 prósent frá byrjun árs 2011 til loka mars á þessu ári. Verðlag hækkaði um 21 prósent á sama tíma. Sérbýli hækkaði um 18,2 prósent í verði á tímabilinu og fjölbýli um 19,3 prósent.

Hæsta meðalverð á fermetra er í miðborginni eða innan Hringbrautar. Verðhækkun í hverfum Reykjavíkur var mest í Hólahverfi, eða um 19 prósent, og Seljahverfi kemur næst á eftir með um 18 prósenta hækkun.

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, segir það eftirtektarverðast í skýrslunni hversu mikið íbúðaverð hefur hækkað í Reykjavík og að það komi á óvart hvaða svæði þar hafi hækkað mest.

Stór hópur ungs fólks er á leið inn á húsnæðismarkaðinn og einnig fer fyrstu kaupendum fjölgandi á markaðnum. Meðalaldur þessa hóps er 32 ár. „Fyrstu kaupendur eru nú þriðjungur útlánahóps okkar, og voru með fjórðung allra kaupsamninga í fyrra,“ segir Una, sem segir hópinn stærri en hún átti von á. „Þá skapar aðflutningur fólks til landsins eftirspurn eftir húsnæði,“ segir hún.

„Það skýrir áhersluna sem við höfum verið að leggja á þennan kaupendahóp undanfarin ár. Þessi aldamótakynslóð, fædd eftir 1980, er að koma með miklum þunga inn á markaðinn. Meðalaldur hópsins hefur farið hækkandi og er nú 32 ár. Hann er þó lægri en víða í Evrópu og er í takt við þróun þar, hann er til dæmis 34 ár á Írlandi.“

Una bendir á að kaupmáttur ungs fólks og Íslendinga hafi aldrei verið meiri. Það komi þó fram í skýrslunni að vísbendingar séu um að kaupmáttur launa haldi ekki í við hækkun fasteigna og þá sérstaklega ekki í Reykjavík. „Það er ástæða til að hafa áhyggjur af bólumyndun.“

„Það er ekki auðvelt fyrir ungt fólk að kaupa og hefur kannski aldrei verið það. Þess vegna er mikilvægt að sýna fyrirhyggju, nýta sér þau úrræði sem eru í boði, ekki síst úrræði sem ríkisstjórnin hefur sett fram með séreignasparnaðinn. Við sjáum líka að hjá því unga fólki sem er fyrstu kaupendur eru 35 til 40 prósent ekki byrjuð að spara,“ segir Una.

Hún segir að ungt fólk leiti í auknum mæli til byggða utan höfuðborgarsvæðisins út af því hvernig ástandið sé nú á fasteignamarkaði. „Að sjálfsögðu höfum við séð hækkun alls staðar í byggðinni í kringum okkur. Þess vegna er mikilvægt að byggingarverktakar hugi að minni og ódýrari eignum.“

Una segir erfitt að meta hve lengi núverandi ástand muni ríkja. „Það er verið að byggja og töluvert mikið í pípunum um landið. Það er spurning hvort það muni slá á þessa umframeftirspurn sem endurspeglast í háu verði.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Fasteignaverð hækkar mun meira en laun og kaupmáttur

Frá áramótum hefur hægt talsvert á hækkun launavísitölu og aukningu kaupmáttar launa en á sama tíma hefur fasteignaverð haldið áfram að hækka hratt. Vísbendingar eru því um aukna skuldsetningu við fasteignakaup og að bólumyndun sé að hefjast.

Íbúðalánasjóður vill auknar eiginfjárkröfur við önnur kaup

Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur fulla ástæðu til þess að auka eiginfjárkröfur þegar lána á fyrir íbúðarkaupum öðrum en þeim fyrstu. Þetta kemur fram í grein sem Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur hjá deildinni, skrifar á vef sjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×