Skoðun

Borgin opnar ungbarnadeildir á leikskólum

Skúli Helgason skrifar
Eitt helsta forgangsmál meirihlutans í borginni er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær mikilvægan áfanga á þeirri leið. Samþykktin byggir á tillögum stýrihópsins Brúum bilið og felur m.a. í sér fjölgun leikskólaplássa um nærri 300 með áherslu á börn um 18 mánaða aldur.

Í haust verða opnaðar ungbarnadeildir við fjóra leikskóla borgarinnar og verða þær sérhæfðar, með aðstöðu, leikrými og búnaði sem hæfir þroska og þörfum barna á öðru og þriðja aldursári. Stefnt er að því að slíkar ungbarnadeildir verði starfræktar í öllum hverfum borgarinnar. Í fyrsta áfanga verða opnaðar sjö ungbarnadeildir við leikskólana Miðborg í miðbænum, Holt í Breiðholti, Sunnuás í Laugardal og Blásali í Árbæ og taka þær til starfa í ágúst/september 2017. Alls verður pláss fyrir um 90 börn á þessum sjö ungbarnadeildum. Þá er stefnt að því að reisa sérhæfðan ungbarnaleikskóla á Kirkjusandi.

Eftir páska verður opnað fyrir innritun barna sem fædd eru frá janúar til apríl 2016 á almennum leikskóladeildum borgarinnar. Þá munum við samþykkja fjölgun plássa fyrir ung börn í sjálfstætt starfandi leikskólum í borginni um rúmlega 200. Með þessum aðgerðum vonumst við til að stór hluti barna sem fædd eru á fyrstu fjórum mánuðum síðasta árs hafi fengið boð um leikskólapláss í haust.

Loks verða niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum hækkaðar um 10% til viðbótar við 2,5% hækkun sem tók gildi um áramótin. Auglýst verður eftir nýjum dagforeldrum og settur á fót starfshópur með þátttöku dagforeldra um aukin gæði og öryggi í þjónustu dagforeldra.

Samhliða verður lögð aukin áhersla á að auglýsa og kynna störf á leikskólum Reykjavíkurborgar sem eftirsóknarverð og gefandi störf með börnum í skapandi umhverfi.

Stýrihópurinn mun á næstu mánuðum móta áætlun um hvernig megi bjóða 12-18 mánaða börnum leikskólapláss í borginni á komandi árum. Ljóst er að framundan er mikið uppbyggingarskeið í leikskólamálum í borginni samhliða vinnu við að bæta starfsumhverfi og aðbúnað starfsfólks leikskólanna.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×