Lífið

Manuela hneyksluð á ummælum Ágústu Evu: „Það að segja einhverjum að borða er bara dónalegt“

Birgir Olgeirsson skrifar
Manuela Ósk Harðardóttir og Ágústa Eva Erlendsdóttir.
Manuela Ósk Harðardóttir og Ágústa Eva Erlendsdóttir. Vísir
Manuela Ósk Harðardóttir, athafnakona og nemi, er heldur betur ósátt vegna ummæla í hennar garð frá leikkonunni Ágústu Evu Erlendsdóttur, en Ágústa Eva hefur beðist afsökunar á þeim.

Manuela birti mynd af sér á Instagram sem hún tók á Beverly Hills Hotel í Bandaríkjunum þar sem hún sýndi fylgjendum sínum afraksturinn af sólbaði dagsins.

„Lækin“ og athugasemdirnar hrönnuðust inn í kjölfarið en Ágústa Eva ritaði ummælin „Borða :)“ við myndina og fékk yfir sig miklar skammir í kjölfarið.

„Þetta var vel meint. Sorry allir sem móðguðust,“ ritaði Ágústa Eva í kjölfarið sem eyddi út fyrri athugasemdinni.

Day one of tanning - this girl is on a mission ...

A post shared by M A N U (@manuelaosk) on

Segir konur eiga að standa saman

Manuela hefur tjáð sig á mjög ítarlegan hátt um málið á Snapchat þar sem hún sagði meðal annars Ágústu Evu taka að sér að segja fólki hvernig það eigi að vera. „Þið heyrið í henni ef þið eruð eitthvað óviss með your body. Hún veit hvernig allir eiga að líta út.“

Manuela greindi jafnframt frá því að hún hefði fengið einkaskilaboð frá Ágústu Evu á Facebook þar sem þær ræddu málið en Manuela segir Ágústu Evu hafa endað þau samskipti og lokað hana á Facebook.

Á Snapchat segir Manuela konur eiga að standa saman og svona framkoma sé fyrir neðan allar hellur og eigi ekki að líðast. Aðrar reglur virðast gilda um feitar manneskjur en grannar að mati Manúelu.

Grannir geta verið viðkvæmir fyrir vaxtarlagi sínu

Hún sagðist ekki þekkja Ágústu Evu og að hún myndi aldrei blanda sér í það hvað Ágústa Eva borðar eða að hún vogi sér að hafa skoðun á hennar útlit.

„Þess vegna finnst mér það óskiljanlegt að þetta hafi gerst. Ég næ ekki utan um það. Ef ég væri búin að bæta á mig, hefði hún kommentað á myndina mína: Farðu í megrun, ekki borða svona mikið, róum okkur á gafflinum,“ segir Manuela á Snapchat.

Hún segir alveg hægt að vera viðkvæmur fyrir vaxtarlaginu ef viðkomandi er grannur og því slæmt að fá svona frá manneskju sem veit ekki hvað Manuela sé að eiga við.

Undir miklu álagi og stressi

Manuela segist hafa verið undir miklu álagi og stressi undanfarið, tengt skóla og öðru, og þegar hún sé í þannig ástandi eigi hún það til að léttast og eiga erfitt með svefn. Þegar það gerist líði henni ekki vel en það tengist því ekki að hún sé haldin einhverjum sjúkdómi.

„Þetta er álag og streita og kemur svona út. Það er bara stundum erfitt að halda þyngd.“

Hún sagði jafnframt að það komi engum við hvenær hún borðar og hvort hún borði. Henni finnst mikilvægt að fólk temji sér umburðarlyndi og virðingu. „Og það að segja einhverjum að borða er bara dónalegt. Nákvæmlega jafn dónalegt og að segja einhverjum að fara í megrun.“

Manuela stundar nám við Fashion Institute of Design & Merchandising í Bandaríkjunum en hún nýtur mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum. Því til stuðnings fylgjast yfir 50 þúsund manns með henni á Instagram þar sem hún birtir myndina. 

Manuela vakti fyrst mikla athygli þegar hún var valin ungfrú Ísland árið 2002 en þar var hún í kjól sem hnefaleikakappinn Mike Tyson hafði gefið henni í verslunarferð hennar í New York.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×