Erlent

Adele aflýsir tónleikum á Wembley

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Aðdáendur Adele eru leiðir yfir því að missa af tónleikunum með söngkonunni.
Aðdáendur Adele eru leiðir yfir því að missa af tónleikunum með söngkonunni. Vísir/Getty
Söngkonan Adele fann sig tilneydda til að aflýsa tveimur tónleikum sem áttu að fara fram á Wembley leikvanginum í Lundúnum vegna raddleysis. Þetta hefðu orðið síðustu tveir tónleikarnir á tónleikaferðalagi söngkonunnar. Læknir Adele ráðlagði henni að aflýsa tónleikunum því hún væri með sködduð raddbönd.

Söngkonan er að eigin sögn algjörlega miður sín yfir þessu. Hún vilji síst bregðast aðdáendum sínum. Adele segist jafnvel hafa íhugað að mæma en hafi síðan ekki getað hugsað sér það. Það væru svik því á sviðinu væru tónleikagestir ekki að heyra í hinni einu sönnu Adele.

„Fyrirgefiði mér, ég elska ykkur. Geriði það, fyrirgefiði mér.“

Þetta segir Adele í lok bréfs sem hún sendi aðdáendum sínum á Twittersíðu sinni.

Ætla að gera gott úr þessu

Stefanía Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar og aðdáandi Adele er ein þeirra sem átti miða á Adele og er, eins og vænta mátti, vonsvikin með þessar fréttir. Stefanía og vinkona hennar eru að sögn nýfarnar að geta hlegið yfir þessu.

„Pundið er náttúrulega hagstætt til þess að versla þannig að maður verður að gera gott úr þessu þó þetta sé ömurlegt,“ segir Stefanía sem ætlar að bæta sér þetta upp með því að skella sér í leikhús. Það er ekki hægt að láta sér leiðast í Lundúnum.

Hér má sjá yfirlýsingu Adele í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×