Erlent

John McCain með krabbamein í heila

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Dóttir McCain segir hann taka fregnunum af yfirvegun.
Dóttir McCain segir hann taka fregnunum af yfirvegun. Vísir/Getty
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrverandi forsetaframbjóðandinn John McCain hefur verið greindur með krabbamein í heila. Æxlið uppgötvaðist þegar McCain var í aðgerð til að fjarlægja blóðkökk sem var fyrir ofan vinstra auga hans.

McCain, sem er 80 ára að aldri, dvelur nú heima hjá sér og jafnar sig eftir aðgerðina, samkvæmt tilkynningu frá skrifstofu hans.

„Læknar hans segja að hann sé að jafna sig ótrúlega vel og að almennt sé heilsa hans mjög góð,“ segir í tilkynningunni.

„Meðferðarmöguleikar eru meðal annars lyfjameðferð og geislameðferð.“

McCain var hermaður í stríðinu í Víetnam og var stríðsfangi í meira en fimm ár. Hann hefur verið öldungadeildarþingmaður fyrir Arizona ríki frá árinu 1987. Hann bauð sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna árið 2008 fyrir hönd Repúblikanaflokksins en tapaði fyrir Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Obama sendi sínum gamla andstæðing batakveðjur á Twitter í gær.

 

 

Sú tegund krabbameins sem McCain var greindur með, glioblastoma, er mjög ágeng. Líkurnar á slíku meini aukast með aldrinum og herjar frekar á karlmenn en kvenmenn.

Meghan McCain, dóttir þingmannsins, segir að fréttirnar hafi verið mikið áfall fyrir fjölskylduna.

„Það kemur ykkur ekki á óvart að í þessu öllu saman er faðir minn sá sem er rólegur og fullur sjálfstrausts,“ skrifaði hún á Twitter síðu sína.

„Hann mætir þessari áskorun líkt og hverri annari. Krabbamein mun kannski hafa ýmis áhrif á hann en það mun ekki láta hann gefast upp. Það hefur aldrei neitt gert.“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi McCain einnig batakveðjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×