Innlent

Tuttugu og tveggja ára ályktun úr gildi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ragnar Aðalsteinsson sagði að frá því að ályktunin var samþykkt árið 1995 hefði sér ekki liðið vel í LMFÍ. 
Fréttablaðið/GVA
Ragnar Aðalsteinsson sagði að frá því að ályktunin var samþykkt árið 1995 hefði sér ekki liðið vel í LMFÍ. Fréttablaðið/GVA
„Þetta þótti mér söguleg stund. Þarna losnaði um áhrif mannanna sem að þessu stóðu en flestir þeirra voru tengdir stjórnmálaflokkunum og það var eins og þeir væru að koma með flokkspólitíkina inn í Lögmannafélagið. Það skiptir mig miklu máli að Lögmannafélagið sé ekki háð stjórnmálaflokkunum að neinu leyti,“ segir Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður.

Á aðalfundi Lögmannafélags Íslands í lok maí var samþykkt að fella úr gildi 22 ára ályktun þess efnis að það samræmist ekki tilgangi félagsins að gefnar séu út álitsgerðir þar sem pólitísk afstaða er tekin í nafni félagsins í umdeildum þjóðfélagsmálum.

Ragnar, sem er fyrrverandi formaður LFMÍ, lagði fram ályktunina ásamt Hákoni Árnasyni hæstaréttarlögmanni.

Fram kemur í nýju tölublaði Lögmannablaðsins að á fundinum hafi Ragnar sagt að þrátt fyrir að ályktunin hefði verið samþykkt á aðalfundinum árið 1995 hefði félagið hvað eftir annað á þeim áratugum sem liðnir væru fjallað um mannréttindi.

Ragnar sagði enn fremur að ályktunin hefði sett félagið niður í áliti margra og valdið mörgum lögmönnum óþægindum við að vera yfir höfuð meðlimir þess. „Þetta er í fullkominni andstöðu við allt það sem lögmannafélög eru að gera um allan heim, hvort sem það er í Noregi eða Palestínu. Þess vegna átti ég erfitt með að sætta mig við þetta.“

Á aðalfundinum var ályktað að það væri og yrði ávallt hlutverk Lögmannafélags Íslands að taka afstöðu til pólitískra ákvarðana stjórnvalda á hverjum tíma ef þau varða mannréttindi þegnanna.

Ragnar sagðist hafa verið í félaginu í 55 ár en frá því á aðalfundinum árið 1995 þegar ályktunin var samþykkt hefði sér ekki liðið vel í því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×