Innlent

Hússtjórn Sjávarútvegshússins ákvað að láta mála yfir myndina af sjómanninum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Myndin af sjómanninum var máluð árið 2015.
Myndin af sjómanninum var máluð árið 2015. Vísir/Vilhelm
Byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar fór fram á að málað yrði yfir sjómanninn utan á Sjávarútvegshúsinu. Í kjölfarið tók hússtjórn hússins ákvörðunina um að láta mála yfir myndina. Þetta kom fram í skriflegu svari sem Guðrún Gísladóttir, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sendi RÚV.

Guðrún segir að hún hafi verið í sambandi við forráðafólk Iceland Airwaves vegna málsins. Í svarinu kemur fram að samskipti við Reykjavíkurborg hafi flýtt fyrir ákvörðuninni um að mála yfir myndina af sjómanninum. Þar kemur fram að það hafi verið komið að viðhaldi á umræddum húsgafli og að málningin sem notuð hafi verið hafi ekki verið í þeim gæðum að hún gæti verið til langframa.

Einhverjir íbúar í nágrenni Sjávarútvegshússins höfðu kvartað yfir myndinni, þar á meðal Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi ráðherra. Myndin af sjómanninum prýddi austurvegg Sjávarútvegshússins á Skúlagötu 4. 

Myndin var hluti verkefnisins Veggjaskáldskapur sem ýtt var úr vör í aðdraganda Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar árið 2015. Upphaflega var einungis gert ráð fyrir því að verkið yrði á veggnum til eins árs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×