Enski boltinn

Arsene Wenger: Ég reyndi tvisvar að kaupa N'Golo Kante

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
N'Golo Kante eða Granit Xhaka? Wenger reyndi að fá Kante en fékk Xhaka.
N'Golo Kante eða Granit Xhaka? Wenger reyndi að fá Kante en fékk Xhaka. Vísir/Getty
Arsenal hefur leitað lengi að öflugum varnartengilið inn á miðjuna. Liðið er fullt af flottum sóknarhugsandi miðjumönnum en einn sterkur afturliggjandi miðjumaður hefði getað breytt miklu fyrir lið Arsene Wenger á síðustu tímabilum.

Gott dæmi um hvað slíkur leikmaður getur gert fyrir þig er franski miðjumaðurinn N'Golo Kante sem er á góðri leið með að vinna ensku deildina annað árið í röð. Hann vann titilinn með Leicester City í fyrra og er núna allt í öllu inn á miðju Chelsea-liðsins sem er með níu stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er einn af aðdáendum N'Golo Kante og hann sagði á blaðamannafundi í dag að hann hafi tvisvar reynt að fá leikmanninn til Arsenal.  Sky Sports segir frá.

Fyrst reyndi Wenger að kaupa hann frá franska liðinu Caen en svo frá Leicester. Þeir sem þekkja Wenger eru örugglega fljótir að álykta sem svo að hann hafi ekki verið tilbúinn að eyða alvöru pening í Kante.  

„Ég reyndi að fá hann þegar hann spilaði í frönsku deildinni og svo aftur þegar hann var kominn til Leicester. Það er ekki hægt að útskýra allt. Félagsskiptamarkaðurinn er bara eins og hann er en við sjáum síðan hvert hann er kominn í dag,“ sagði Wenger.

„Kante hefur haft gríðarlega áhrif. Það er engin tilviljun að Chelsea er það sem liðið er í dag og hvað Leicester gerði á síðasta tímabili,“ sagði Arsene Wenger meðal annars um N'Golo Kante.

Arsenal heimsækir Chelsea á Stamford Bridge á morgun en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 12.30.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×