Yfirvöld Spánar segja atkvæðagreiðsluna vera ólöglega og er lögreglan búin að loka um 1.300 af þeim 2.315 skólum sem eiga að vera kjörstaðir. Stuðningsmenn atkvæðagreiðslunnar halda þó enn til í mörgum skólum og neita að yfirgefa þá.
Katalónía er tiltölulega ríkt svæði í norðausturhluta Spánar með eigið tungumál og menningu. Þar búa um 7,5 milljónir manna. Héraðið nýtur mikils frelsis en er ekki sjálfstætt ríki undir stjórnarskrá Spánar.
Stjórnvöld hafa sent þúsundir lögregluþjóna til Katalóníu til að loka umræddum skólum og jafnvel leggja hald á kjörseðla og margt fleira. Þá hafa skipanir verið gefnar um að loka vefsvæðum sem tengjast atkvæðagreiðslunni.
Í Barcelona ganga fjölmargir um götur borgarinnar og veifa fána Katalóníu, samkvæmt frétt Reuters.
Þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda Spánar segir Puigdemont að atkvæðagreiðslan muni fara fram.