Síðustu ár hefur utankjörfundaratkvæðagreiðslan farið fram í Perlunni og þar áður í Laugardalshöll, en ekki reyndist unnt að fá afnot af húsnæði þar í þetta skiptið.

Ekki eru allir jafn hrifnir. „Mér fyndist meiri bragur á því að hafa þetta eins og verið hefur, en þetta er skammur fyrirvari og menn hafa þurft að sníða sér stakk eftir vexti. En ég vona að þetta verði bara í þetta eina skipti og finnst þetta sjoppulegt,“ segir Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi í Reykjavík.
En hvers vegna að fara með utankjörfundaratkvæðagreiðsluna í Smáralind frekar en aðrar verslunarmiðstöðvar? „Ég held að ástæðan fyrir þessu hljóti að vera sú að þeir í Smáralind hafi nóg af lausu plássi til að láta undir svona atburð. Við hér í Kringlunni höfum ekkert pláss fyrir svona,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri fasteignafélagsins Reita, stærsta eiganda Kringlunnar. Hann hafði ekki heyrt af ákvörðun sýslumannsins þegar blaðamaður náði tali af honum í gær. „Ég held að við munum ekki óska skýringa á því af hverju þeir fengu þetta enda hlýtur útskýringin að felast í rýminu sem menn hafa undir þetta,“ bætir Guðjón við.