Innlent

Ráðalaus og óttast um mannorð sitt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jónas Hallgrímsson upplifir þá martröð að mynd af honum var tekin ófrjálsri hendi og notaður af manni sem hefur áreitt íslenska konu undanfarin ár. Hann þekkir hvorki manninn né konuna.
Jónas Hallgrímsson upplifir þá martröð að mynd af honum var tekin ófrjálsri hendi og notaður af manni sem hefur áreitt íslenska konu undanfarin ár. Hann þekkir hvorki manninn né konuna.
Myndband, sem Eva Riley Stonestreet birti á Facebook í gærkvöldi vegna áreitis íslensks karlmanns undanfarin þrjú til fjögur ár, hefur farið víða. Um fimmtíu þúsund manns hafa horft á myndbandið á hálfum sólarhring. Maðurinn, sem virðist eiga við geðræn vandamál að stríða, nálgast Evu á ólíkum samfélagsmiðlum og notast við dulnefni og myndir af öðru fólki.

Einn þeirra sem vaknaði upp við vondan draum í nótt er Jónas Hallgrímsson. Í myndbandinu, sem er fimm mínútna langt, birtir Eva meðal annars skjáskot af samskiptum sínum og mannsins, þar sem maðurinn titlar sig Jónas Sigurðsson og notar mynd af Jónasi Hallgrímssyni. Myndin er prófílmynd Jónasar af LinkedIn.

„Það er hrikalegt að vakna við símtal frá fjölskyldumeðlimi um að þetta sé í dreifingu á netinu,“ segir Jónas ráðalaus um persónustuldinn (e. identity theft). Hann hefur fengið fjölmargar ábendingar um myndbandið frá vinum og vandamönnum og reynt að bregðast við, árangurslaust.

Eva Riley Stonestreet segir Jónas eitt af gervinöfnunum sem maðurinn hefur notað.
„Maður hefur smá kunnáttu og þekkingu á netinu, og veit hversu kröftugt það er,“ segir Jónas sem hefur áhyggjur af mannorði sínu á meðan myndbandið fer sem eldur í sinu um netheima.

Hann reyndi strax í nótt að komast í samband við öryggisdeild Facebook en án árangurs. Hann endaði á því að tilkynna myndbandið til Facebook en það er enn í birtingu. Þá hefur hann beðið Evu Riley, sem hann hefur mikla samúð með, um að breyta myndbandinu á þann veg að myndin af honum sjáist ekki.

Eva segist föst í vinnu langt fram eftir degi og ekkert geta gert þangað til. Jónas velti því upp hvort hún gæti ekki fjarlægt myndbandið þangað til og sett aftur inn seinni partinn þegar hún hefði haft tök á að breyta. Þá beiðni tók Eva ekki til greina.

Jónas fékk meldingu á Facebook í morgun þess efnis að vinur hans hefði tilkynnt gerviprófílinn Jónas Sigurðsson til Facebook. Prófílinn virðist ekki lengur að finna á Facebook.

Þá hafði Jónas samand við lögreglu í nótt í gegnum neyðarlínuna. Hann tekur fram að honum hafi þótt erfitt að hringja í 1-1-2 en einfaldlega ekki fundið neitt annað símanúmer á lögregluna. Hann talaði við vaktmann og útskýrði málið fyrir honum. Hann sagði Jónasi að lítið væri hægt að gera en hann gæti komið og gert skýrslu að deginum til.

Jónas sendi sömuleiðis skilaboð á lögregluna á Facebook og fékk svar frá henni á ellefta tímanum.

Við getum víst fátt gert við efni sem er dreift á netinu. Hún er ábyrg fyrir því efni sem hún dreifir og ef það veldur þér miska gæti verið um einkarefsimál að ræða þar sem hún er bótaskyld, það er þó ekki nokkuð sem lögreglan skiptir sér beint af. Svo er hægt að skoða hvort að hægt sé að „reporta“ myndbandið gegnum Facebook, en þar á bæ vilja menn ekki að verið sé að dreifa skjáskotum með þessum hætti. Mögulega er það ein leið.

Jónas er strand. Myndband með mynd af andlitis hans og hans fornafni er í mikilli dreifingu um netið. Áhyggjurnar af mannorðinu eru miklar.

„Hvað getur fólk gert?“ spyr Jónas.

Uppfært klukkan 14:32

Myndbandið er ekki lengur aðgengilegt á Facebook.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×