Innlent

Staða Bandaríkjanna geti veikst samþykki Trump ekki sáttmálann

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir það geta veikt stöðu Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi ef þeir samþykkja ekki Parísarsamkomulagið. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist í gær ekki ætla að staðfesta sáttmálann að svo stöddu.

„Að mínu viti held ég að það veiki ekki samkomulagið heldur veiki stöðu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Til að mynda lýstu því yfir allir forsvarsmenn iðnríkjanna sjö á fundi sínum fyrir nokkrum dögum að þau öll ætla að sjálfsögðu að virða þetta samkomulag. Þannig að hann er einn eftir og Bandaríkin sitja þá ein eftir, standa ekki við sínar skuldbindingar og það er mikill álitshnekkir fyrir Bandaríkin á alþjóðavettvangi,“ segir Rósa Björk.

Ákvörðun Trump um að samþykkja ekki samkomulagið á leiðtogafundi G7 ríkjanna í gær kom ekki á óvart, enda lýsti hann ítrekað yfir andstöðu sinni við samninginn í kosningabaráttu sinni í fyrra. Hann sagðist hins vegar ætla að taka ákvörðun í næstu viku. Umhverfisverndarsinnar víða um heim hafa lýst yfir áhyggjum vegna málsins.

Rósa Björk óttast að fleiri feti í fótspor Trump – samþykki hann ekki samninginn.

„Það er náttúrulega hætta á því að ef Bandaríkjamenn ætla sér ekki að standa við þetta samkomulag í loftslagsmálum að þá er hætta á því að önnur ríki dragi lappirnar. En bíðum og sjáum og vonum að hans stjórn muni uppfylla sínar skuldbindingar eins og búið er aðg era ráð fyrir,“ segir hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×