Á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) þann 24. ágúst síðastliðinn kynnti Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri fyrirtækisins, m.a. hugmyndir um möguleg endurkaup OR á fasteigninni að Bæjarhálsi 1 í Reykjavík.
Daginn eftir stjórnarfundinn, þann 25. ágúst, hélt Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, blaðamannafund þar sem hann greindi frá því að vesturhús höfuðstöðvanna væri afar illa farið vegna rakaskemmda. Á fundinum voru kynntir sex valkostir að úrbótum sem áætlað er að kosti frá 1,5 upp í allt að þrjá milljarða króna. Þetta eru leiðir sem skipta má í lagfæringu, endurbyggingu útveggja eða að rífa húsið að hluta. Á fundinum var þó ekki minnst á möguleikann á að kaupa húsið aftur. Þess kann þó að vera þörf.

„OR hefur endurkauparétt á húseignunum við Bæjarháls. Hann hefur komið til umræðu í tengslum við þann vanda sem blasir við,“ segir Ingvar. Hann segir að ákvörðun um aðgerðir vegna galla og skemmda á vesturhúsinu verði ekki teknar nema í nánu samráði við eigendur húsanna. Engin tillaga hafi þó verið lögð fram né ákvarðanir teknar.
„Í lausnunum felst að við erum ekki að fara að gera mikið fyrir hús sem við eigum ekki. Því höfum við varpað því fram hvort skynsamlegt sé að kaupa húsið en þetta er algjörlega á hugmyndastigi enn þá,“ segir Ingvar. Aðspurður telur hann að gróflega megi áætla að það gæti kostað um 5,5 milljarða að kaupa húsið aftur.