Erlent

May stefnir á „hart Brexit“

atli ísleifsson skrifar
Theresa May.
Theresa May. Vísir/AFP
Bretland mun ekki reyna að viðhalda tengslum líkt og aðgangi að innri markaði Evrópusambandsins, þegar gengið verður úr sambandinu.

Þetta fullyrða breskir miðlar að Theresa May, forsætisráðherra Breta, muni segja í ræðu síðar í dag sem beðið er með eftirvæntingu en þar mun hún útlista ferlið sem Bretar standa nú frammi fyrir eftir að þeir kusu að segja sig úr ESB.

Ræðan verður flutt í London þar sem sendiherrar erlendra ríkja verða í hópi áhorfenda.

Í frétt BBC segir að búist sé við því að formlegar viðræður um útgöngu Breta hefjist í mars næstkomandi og að þær gætu tekið allt að tvö ár.

Ef heimildir miðlanna eru réttar virðist May ætla að fara í svokallað „hart Brexit“, þar sem öll eða flest tengsl eru rofin strax, en ekki í „mjúkt Brexit“ eins og sumir hafa kallað eftir, þar sem rætt væri um einhvers konar aukaaðild eða jafnvel aðild að EES.

Búist er við að May muni í ræðunni setja fram markmið í tólf liðum varðandi hvað Bretar vilji ná fram í þeim viðræðum við sambandið sem framundan eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×