Innlent

Tölvunarfræðingur um Jayden K. Smith: „Þessi texti sem fylgir þessari aðvörun er bara kjaftæði“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Friðrik Skúlason, tölvunarfræðingur, segir að Jayden K. Smith-hrekkurinn sé ekki nýr af nálinni.
Friðrik Skúlason, tölvunarfræðingur, segir að Jayden K. Smith-hrekkurinn sé ekki nýr af nálinni. vísir/pjetur
Friðrik Skúlason, tölvunarfræðingur, segir að Jayden K. Smith-hrekkurinn sem gert hefur Facebook-notendum lífið leitt undanfarið sé ekki nýr af nálinni, en eins og Vísir greindi frá fyrr í dag fær fjöldi fólks á Facebook nú skilaboð þess að það megi alls ekki samþykkja vinabeiðni frá Jayden K. Smith.

 

Smith þessi sé nefnilega hakkari sem geti þannig komist inn á Facebook-reikning viðkomandi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

„Þetta byrjaði árið 2011 en þá hét viðkomandi ekki Jayden K. Smith heldur Bobby Roberts og 2012 gekk þetta aftur og þá hét maðurinn Tanner Dwyer. Þetta er bara gabb og er eins og keðjubréf, ég veit ekki hvort einhver er bara að fíflast eða hvort það er einhver að gera vísindalega tilraun hvað það er hægt að gabba stóran hluta heimsins,“ sagði Friðrik þegar hann ræddi þessi mál í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Hann sagði ekkert á bak við þetta og að það væri enginn Jayden K. Smith að senda út vinabeiðnir.

„Jafnvel þó að það væri maður með þessu nafni [...] þá gæti ekkert gerst þó að þú myndir samþykkja hann. Það er ekki þannig að það sé hægt að brjótast inn á reikninginn þinn með því að samþykkja vinabeiðni þó að hann sé hakkari. [...] Málið er það að þessi texti sem fylgir þessari aðvörun er bara kjaftæði, það er ekkert hægt að kalla þetta neinu öðru nafni. Það er enginn hakkari og það er enginn að reyna að brjótast inn á reikninginn þinn,“ sagði Friðrik en hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×