Erlent

Tölvuþrjótar herja á Macron

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Emmanuel Macron
Emmanuel Macron Vísir/Getty
Tölvuþrjótar reyna nú að koma fæti fyrir Emmanuel Macron og framboð hans til forseta Frakklands, samkvæmt öryggissérfræðingum. Talið er að sömu aðilar séu að verki og reyndu að hafa áhrif á úrslit bandarísku forsetakosninganna.

Sérfræðingar öryggisfyrirtækisins Trend Micro hafa rekið árásirnar til rússnesks hóps sem er þekktur sem Fancy Bear, APT28 og Pawn Storm. Hópurinn er talinn búa yfir gríðarlegri þekkingu og tækni til slíkra brota.

Feike Hacquebord frá Trend Micro segir að aðferðirnar sem notast var við bendi til að um sama hóp sé að ræða og þann sem reyndi að hafa áhrif á kosningarnar vestanhafs.

Vefveiðapóstar, spilliforrit og fölsuð lén voru notuð við árásina segir Feike Hacquebord frá öryggisfyrirtækinu Trend Micro.

Talsmaður frá tölvuöryggisstofnun Frakklands hefur staðfest að ráðist hafi verið á kerfi sem MAcron og starfsfólk hans notast við á síðustu dögum. Hann segir þó ekki hægt að staðhæfa að um hópinn Pawn Storm beri ábyrgð á árásunum.

Talsmaður Macron segir að teymi hans sé meðvitað um árásirnar og að viðeigandi öryggisráðstafanir hafi verið gerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×