Innlent

Lögregla segir kannabisvökva í rafrettur vera kominn í sölu um allt land

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan hefur áhyggjur af þeirri fíkniefnasölu hér á landi sem fer fram á Netinu.
Lögreglan hefur áhyggjur af þeirri fíkniefnasölu hér á landi sem fer fram á Netinu. Vísir/Getty
„Það má segja það að við höfum orðið vör við það,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, spurður hvort lögreglan hafi orðið vör við að talsvert magn af kannabisvökva sé komið í sölu hér á landi.

Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, greindi frá því á Facebook í gær verið sé að selja kannabisvökva á íslenskum fíkniefnasölusíðum á Facebook og birti auglýsingar af þeim síðum máli sínu til stuðnings.

„Ef þið foreldrar sjáið þessi hylki í fórum krakkana ykkar þá vitið þið hvað þetta er. Þessi vökvi er kominn út um allt land í sölu,“ segir Sigvaldi Arnar. Greint var fyrst frá orðum Sigvalda í Morgunblaðinu.

„Við erum alltaf annað slagið að eiga við þessar sölusíður,“ segir Grímur Grímsson í samtali við Vísi um málið.

Hann segir erfitt að greina með augum muninn á kannabisvökva og nikótínvökva. „En það er hugsanlegt að það sé öðruvísi lykt, þó ég þori ekki alveg að fara með það.“

Grímur segir lögregluna hafa áhyggjur af þeirri fíkniefnasölu hér á landi sem fer fram á Netinu.

„Götusalan er að töluverðu leyti komin á Facebook og á Netið og við erum alltaf að reyna annað slagið að vinna í því en höfum ekki náð að vera eins mikið í því og við hefðum viljað vera,“ segir Grímur og segir skort á björgum innan lögreglunnar ástæðu þess að ekki sé gert meira í þessum málum.

„Við höfum annað slagið tekið skurka þegar kemur að þessari Facebook-sölu en ekki náð að gera það nógu reglulega,“ segir Grímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×