Erlent

Múrinn fellur úr fjárlögum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. vísir/AFP
Múrinn sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lofað að reisa á landamærum Mexíkó verður ekki á fjárlögum þessa árs. Þetta segir Kellyanne Conway, ráðgjafi forsetans, í samtali við breska ríkisútvarpið.

Fjárlögin verða að komast í gegnum þingið á föstudag en ef það tekst ekki gætu stórir hlutar hins opinbera kerfis stöðvast tímabundið uns fjárlög verða samþykkt.

Demókratar, sem eru afar mótfallnir uppbyggingu múrsins, hafa hótað því að koma í veg fyrir að fjárlagafrumvarpið fari í gegnum þingið sé þar fé eyrnamerkt múrnum. En þrátt fyrir að múrinn verði ekki á fjárlögum þessa árs lýsti Trump því yfir á Twitter-síðu sinni í gær að múrinn verði reistur – frá því verði ekki hvikað. Gert hafði verið ráð fyrir um hálfum milljarði Bandaríkjadala í múrinn í fjárlögum ársins.

Conway segir að þrátt fyrir þetta sé uppbygging múrsins mikið forgangsmál, en um er að ræða eitt helsta kosningaloforð Trump. Hann lýsti því yfir í kosningabaráttu sinni að veggurinn yrði reistur og að Mexíkó muni greiða fyrir uppbygginguna. Bandaríkjastjórn muni leggja út fyrir veggnum og senda svo Mexíkó reikninginn. Stjórnvöld í Mexíkó segjast hins vegar aldrei munu greiða fyrir vegginn.

Samkvæmt BBC á Trump að hafa sagt á lokuðum fundi á dögunum að uppbyggingin verði mögulega fjármögnuð síðar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×