Stefnt er að því að finna um það bil þúsund slíka einstaklinga og safna ítarlegum gögnum um þá, í þeirri von um að finna nýjar leiðir til að berjast gegn alvarlegum krabbameinum.
Leitað verður að einstaklingum sem hafa lifað afar lengi eftir að hafa greinst með eitt af þrenns konar krabbameinum; langt gengið lungnakrabbamein (e. extensive-stage small cell lung cancer), ákveðna tegund krabbameins í brisi (e. metastatic pancreatic ductal adenocarcinoma) og ákveðin heilaæxli (e. glioblastoma).
Guardian hefur eftir Thankamma Ajithkumar, krabbameinssérfræðingi við Cambridge University sjúkrahúsið að venjulega sé ekki gert ráð fyrir að einstaklingar sem greinast með ofangreind mein lifi lengur en tvö eða þrjú ár.
Hins vegar sé um þrjú til fimm prósent sem geri það og gott betur.
Því sé vert að skoða hvort það er eitthvað við erfðir eða æxlisgerð viðkomandi einstaklinga sem spili þarna inn í. Ætlunin sé að reyna að finna leiðir til að berjast við meinin og hjálpa fleirum að lifa lengur.
Vísindamennirnir gera ráð fyrir að í einhverjum tilvikum sé það eitthvað í ónæmiskerfinu sem hjálpar í baráttunni við krabbameinið og í einhverjum tilvikum séu það erfðafræðileg sérkennilegheit í meininu sjálfu sem gerir það viðkvæmara fyrir meðferð.
Öllum gögnum verður safnað í gagnagrunn franska nýsköpunarfyrirtækisins Cure51 en Nicolas Wolikow, framkvæmdastjóri og einn stofnanda Cure51, segist vonast til þess að með átakinu verði vísindasamfélagið nær því að útrýma krabbameini.