Erlent

Brexit efst á baugi í stefnuræðu drottningar

Kjartan Kjartansson skrifar
Karl Bretaprins fylgdi móður sinni Elísabetu í þinghúsið í dag vegna veikinda Filipusar, hertoga af Edinborg.
Karl Bretaprins fylgdi móður sinni Elísabetu í þinghúsið í dag vegna veikinda Filipusar, hertoga af Edinborg. Vísir/AFP
Frumvörp sem tengjast brotthvarfi Breta úr Evrópusambandinu voru á meðal þess sem tilkynnt var um í stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar Bretlands sem Elísabet drottning las við þingsetningu í dag.

Af tuttugu og fjórum frumvörpum sem minnihlutastjórn Theresu May forsætisráðherra ætlar að leggja áherslu á næstu tvö árin tengjast átta Brexit og áhrif útgöngunnar á atvinnuvegi landsins, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Í þeim er kveðið á um að evrópsk lög verði breskum auk tillaga að nýjum lögum um fiskveiðar, viðskipti, tolla, fólksflutninga, landbúnað, kjarnorku og refsiaðgerðir.

Hryggjarstykkið í Brexit-löggjöfinni er frumvarp sem afnemur lög um Evrópusambandsaðildina og bindur enda á lögsögu Evrópudómstólsins á Bretlandi. Samkvæmt því verða samevrópsku lögin að breskum en þingið mun síðan ákveða hvaða hlutum það vill halda og hverjum það vill sleppa.

Aldagömul hefð er fyrir því að einvaldur Bretlands lesi stefnuræðu ríkisstjórna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×