Þórólfur segir í greininni að fyrst megi nefna alvarlegar afleiðingar sárasóttar, til dæmis meðfædda sýkingu. Þá varar hann einnig við því að ein afleiðinganna gæti verið meðfæddar HIV-sýkingar. „Því eru læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hvattir til að vera á varðbergi gagnvart þessum sjúkdómum í sínum daglegu störfum,“ skrifar sóttvarnalæknir.

Samkvæmt Þórólfi hefur árlegur fjöldi þeirra sem greinist með lekanda aukist árlega frá árinu 2004 og í fyrra hafi 89 greinst með sjúkdóminn. „Í dag eru flestir sem greinast með lekanda karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum.“
Sama þróun hefur jafnframt átt sér stað með sárasótt og í fyrra var fjöldi nýgreindra með HIV-sýkingu sá hæsti á einu ári frá því faraldurinn hófst.