Viðskipti innlent

Segir Kortaþjónustuna ekki hafa stefnt í lausafjárvanda

Hörður Ægisson og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Jóhannes Ingi Kolbeinsson er framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.
Jóhannes Ingi Kolbeinsson er framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar. Vísir/Arnþór Birkisson
Risavaxið gjaldþrot breska flugfélagsins Monarch Air­lines leiddi til þess að félagið Kortaþjónustan var selt til Kviku og annarra fjárfesta. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins en samkvæmt heimildum voru áhyggjur af því að gjaldþrotið gæti leitt til lausafjárvanda.

Þessu hafnar Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri félagsins. „Félagið var ekki komið í neinn lausafjárvanda og það var alveg óvíst að félagið hefði komist í einhvern lausafjárvanda,“ segir Jóhannes og bætir því við að færsluhirðar Monarch hafi verið átta talsins. Hluti Kortaþjónustunnar hafi verið frekar lítill og tryggingarféð mikið.

„Það voru ýmsir búnir að sýna félaginu áhuga en þetta var ágætis tækifæri til að styrkja félagið. Til að taka allan vafa af um að það yrðu nokkur lausafjárvandræði. En það var ekki að stefna í það og það var ekkert sem var fyrirséð. Það er ekki orðinn neinn lausafjárvandi að neinu leyti,“ segir Jóhannes enn fremur.

Kvika og hópur fjárfesta keyptu allt hlutafé í félaginu og leiddi hlutafjáraukningu. Frá þessu var greint á fimmtudag en eignarhluti Kviku verður rúmlega fjörutíu prósent eftir viðskiptin. Samkvæmt heimildum gengu kaupin mjög hratt fyrir sig.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Fréttablaðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×