Tónlist

Rappari landsins frá Akureyri

Stefán Þór Hjartarson skrifar
KÁ-AKÁ segir það vera fínt að vera rappari á Akureyri.
KÁ-AKÁ segir það vera fínt að vera rappari á Akureyri. Mynd/Björn Jónsson
„Þetta er fimm laga EP sem ég gaf út í samstarfi við Björn Val. Ég flaug suður og var þar í viku að taka þetta allt upp – ég var búinn að semja þetta allt saman fyrir það. Ég skellti mér svo aftur suður og eftirvinnsla hófst. Við köttuðum eitt lag af plötunni og settum inn annað lag sem ég gerði með Helga Ársæl – það heitir Púki og mér fannst það passa miklu betur inn,“ segir Halldór Kristinn Harðarson, eða KÁ-AKÁ, sem eins og glöggir gætu lesið úr rappnafninu kemur frá höfuðborg norðurlands, Akureyri. Hann var fyrir skemmstu að gefa út plötuna Bitastæður og það má segja að með henni vekji hann rappútgáfu á Akureyri úr ákveðnum dvala sem hefur að mestu ríkt síðan að Skytturnar gáfu út Illgresið hér um árið.

„Þetta er svona uppgjör á seinustu tímum. Ég vildi ekki hafa þetta neitt of flókið – þetta eru bara fimm trap „bangers“ sem fá þig til að hreyfa sig og þú færð ekkert leið á. Bara mjög einföld hugsun framkvæmd á góðan hátt.“

Það er sem sagt ekkert hægt að vanga við nein lög þarna?

„Nee, ég reyni að sleppa við þau. Ég er dálítið ofvirkur karakter og gæti aldrei hlustað á sjálfan mig þannig, held ég,“ segir Halldór en viðurkennir samt að hann eigi eitt stykki ástarlag inn á lager.

Skytturnar frá Akureyri voru nokkuð vinsælir hér í kringum aldamót.
Það eru einhverji góðir gestir þarna ekki satt? 

„Það er náttúrulega Birkir Bekkur í introinu sem tekur gott símtal á mig og talar inn á talhólfið mitt. Svo er Emmsjé Gauti með mér í laginu Meir. Ég er auðvitað búsettur fyrir norðan þannig að ég tók allt mitt upp í laginu og svo hoppaði hann í það, henti þarna í átta bars með stæl.“

Verð ég þá ekki að spyrja - hvernig gengur það að vera rappari á Akureyri í dag? 

„Jú auðvitað. Það gengur bara vel að vera rappari á Akureyri núna. Það byrjaði kannski sem smá „ströggl“ – en ég er að spila miklu meira núna en ég bjóst við miðað við allt og það gengur bara fínt. Ég er að fá athygli fyrir sunnan líka, og bara um allt land – ég er hættur að spá í því að ég sé Akureyringur að rappa, ég er bara rappari landins. Ég tengi mig auðvitað alltaf við Akureyri samt og „reppa“ það þangað til að ég dey. En þetta er ekki bara norðlensk sena fyrir mér lengur.

Þannig að geta allir gert þetta? 

„Já, maður verður bara að þora. Útfrá því að ég fór að gera rapp eru kannski aðeins fleiri gera eitthvað fyrir norðan – ég ætla ekki að segja mér að þakka en ég á kannski einhvern þátt í því.

Hvað er svo á döfinni hjá þér? 

„Í rauninni bara að lifa aðeins á þessari plötu sem ég var að gefa út, leyfa fólki aðeins að melta hana. Síðan er ég að fara að skjóta myndband við eitt lag af plötunni, ég geri það líklega núna í vikunni og eða þeirri næstu. Svo er það bara Airwaves, tvö gigg í dag. Já og auðvitað bara að halda áfram að gera „bangers“ og njóta þess að vera til.“

Og gefa út ástarlagið? 

„Já auðvitað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×