Innlent

MS á Akureyri kveikir á díselkatli þegar rafmagnið klárast

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Skortur á fjárfestingu í orkuflutningakerfum á Norðurlandi hefur bitnað harkalega á atvinnulífi í Eyjafirði. Dæmi eru um að fyrirtæki hafi hætt við að hefja rekstur á Akureyri af þessum sökum. Mjólkursamsalan þarf að reiða sig á díselolíu í rafmagnsframleiðslu þegar skert framboð er af rafmagni eða kerfi liggur niðri.

Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um ástand innviða kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða á Íslandi nemi 372 milljörðum króna. Ein mest aðkallandi viðhalds- og fjárfestingarþörfin er í flutningskerfum raforku í dreifbýli. Hér um að ræða þriggja fasa rafmagn sem flest stærri fyrirtæki þurfa.

Nánast allar nýjar raflínur í flutningskerfinu hafa mætt andstöðu og mikið hefur verið um kærumál sem hefur gert það að verkum að engin slík framkvæmd hefur orðið að veruleika á síðustu árum. Eyjafjörður er sá staður sem hefur farið hvað verst úti þegar fjárfesting í flutningskerfum er annars vegar. 

„Það eru ýmis fyrirtæki í framleiðslu sem treysta á rafmagn og þola illa flökt. Til dæmis framleiðslufyrirtæki sem lenda í því að framleiðslan skemmist þegar það kemur flökt á rafmagnið. Það er að gerast oftar núna en á undanförnum árum,“ segir Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. 

Elva Gunnlaugsdóttir verkefnisstjóri hjá atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar segir að skortur á kerfum til að flytja rafmagn ístandi atvinnulífi fyrir norðan fyrir þrifum.
Deila rafmagni með Vífilfelli og ýmsum þvottahúsum

Þegar skert framboð er af rafmagni á Akureyri eða kerfi liggur niðri kveikir Mjólkursamsalan á Akureyri á stórum katli sem knúinn er áfram af díselolíu til að framleiða rafmagn. Verksmiðja Vífilfells og ýmis þvottahús á Akureyri fá svo rafmagn frá þessum katli.

Skemmtiferðaskip sem koma til Akureyrar geta ekki sótt neitt rafmagn á Akureyri en keyra þess í stað á olíu meðan þau eru í höfn. Þá eru dæmi um fyrirtæki hafi hætt við hefja rekstur á Akureyri af þessum sökum. 

Elva segir að í raun og veru standi skortur á háspennulínum til að flytja þriggja fasa rafmagn „atvinnulífi og samfélagi í Eyjafirði í heild sinni fyrir þrifum“.

Í raun hefur ekkert breyst í þessum málum frá því Fréttablaðið greindi frá því á árinu 2014 að öll raforka í Eyjafirði væri uppseld. 

Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi í heiminum per íbúa og það er til nóg rafmagn á Norðurlandi til að anna orkuþörf atvinnulífsins á þessum svæðum. Það vantar bara fjárfestingu í háspennulínum.

„Það er til nægt rafmagn í kerfinu en það eru flutningskerfi innan svæðis sem er ekki nógu sterkt. Það er komið til ára sinna og það er kominn tími á endurnýjun á byggðalínunni,“ segir Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Akureyrar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×