Erlent

Obama ræddi við Merkel á opnum fundi í Berlín

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sátu fyrir svörum við Brandenborgarhliðið í Berlín í dag.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sátu fyrir svörum við Brandenborgarhliðið í Berlín í dag. Vísir/AFP
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er nú staddur í Berlín, höfuðborg Þýskalands, en hann flutti í fyrsta sinn ræðu á evrópskri grundu síðan hann lét af embætti forseta. Hann hitti kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, á opnum fundi við Brandenborgarhliðið í Berlín í dag.

Obama og Merkel ræddu lýðræði og alþjóðlega ábyrgð á 500 ára afmæli siðaskiptanna í Þýskalandi. Búist var við um 100 þúsund áhorfendum við Brandenborgarhliðið í dag. Obama og Merkel tóku við spurningum um lýðræði frá kennara, leikara, félagsráðgjafa og nema.

200 þúsund Berlínarbúar komu saman til að hlýða á Barack Obama í Berlín árið 2008, sem þá var í framboði til forseta Bandaríkjanna. Í þeirri heimsókn meinaði Angela Merkel honum að halda ræðu við Brandenborgarhliðið. Árið 2016 hélt hann í síðustu embættisferð sína til Evrópu, einmitt til Berlínar.

Merkel mun ganga á fund núverandi forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, síðar í dag er ríki Atlantshafsbandalagsins hittast í höfuðstöðvum sínum í Brussel.

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fékk öllu blíðari viðtökur í Berlín en eftirmaður hans, Donald Trump, fékk í Brussel í gær.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×