Erlent

Önnur kona sakar þingmann demókrata um áreitni

Kjartan Kjartansson skrifar
Franken var grínisti áður en hann var kjörinn þingmaður Minnesota. Gamanið er þó tekið að kárna hjá honum eftir að tvær konur hafa stigið fram og sakað hann um áreitni.
Franken var grínisti áður en hann var kjörinn þingmaður Minnesota. Gamanið er þó tekið að kárna hjá honum eftir að tvær konur hafa stigið fram og sakað hann um áreitni. Vísir/AFP

Nýja ásakanir um kynferðislega áreitni eru komnar fram gegn Al Franken, öldungadeildarþingmanni demókrata. Hann hafði áður beðist afsökunar á atviki sem gerðist áður en hann varð þingmaður. Nú hefur kona stigið fram sem segir hann hafa gripið í rass sinn á hátíð árið 2010 þegar hann var orðinn þingmaður.

Lindsay Menz, sem nú er 33 ára gömul, segir við CNN-fréttastöðina að atvikið hafi átt sér stað á ríkishátíð Minnesota árið 2010. Þá hafði Franken verið öldungadeildarþingmaður í tvö ár. Þegar eiginmaður hennar hafi ætlað að taka mynd af henni með þingmanninum hafi Franken gripið þétt um hana og tekið í afturendann á henni.

„Hún var þétt utan um rasskinnina á mér,“ fullyrðir Menz.

Franken segir CNN að hann muni ekki eftir myndatökunni en að hann harmi að Menz hafi upplifað vanvirðingu. Eiginmaður Menz og faðir hennar segja hins vegar að hún hafi sagt þeim strax frá því sem gerðist.

Áður hafði hann beðið Leeann Tweeden, útvarpsfréttakonu í Kaliforníu, afsökunar á áreitni sem átti sér stað árið 2006. Tweeden sakaði Franken um að hafa kysst sig með valdi og þuklað á henni.

Mitch McConnell, forseti öldungadeildarinnar og leiðtogi repúblikana í henni, lagði til að siðanefnd þingsins skoðaði mál Franken eftir ásakanir Tweeden. Franken fagnaði þeirri tillögu.


Tengdar fréttir

Sakaður um að káfa á sofandi konu

Útvarpskonan Leeann Tweeden segir öldungadeildarþingmanninn Al Franken hafa káfað á sér þegar hún var sofandi og kysst hana gegn vilja hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×