Innlent

Ýmsar hugmyndir um framtíð Osta- og smjörsöluhússins

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Snorrabraut 54 er virðulegt steinhús með stækkunarmöguleika á góðum stað í jaðri miðbæjar Reykjavíkur.
Fréttablaðið/Ernir
Snorrabraut 54 er virðulegt steinhús með stækkunarmöguleika á góðum stað í jaðri miðbæjar Reykjavíkur. Fréttablaðið/Ernir
„Það eru alls konar hugmyndir uppi á borði,“ segir Hilmar Kristinsson, forsvarsmaður félags í eigu hans og Rannveigar Einarsdóttur, eiginkonu hans, sem keypt hefur Snorrabraut 54, gamla hús Osta- og Smjörsölunnar, af Söngskólanum í Reykjavík.

Hilmar og Rannveig eru hótelrekendur í Sandhotel á Laugavegi. Hann segir ýmsa möguleika blasa við varðandi framtíð Snorrabrautar 54. Samkvæmt deiliskipulagi megi rísa tveggja hæða bygging þar sem nú er hús á einni hæð á baklóðinni aftan við sjálft Osta- og smjörsöluhúsið.

„Þetta er býsna stór lóð en þetta verður ekki stór bygging,“ segir Hilmar um hugsanlega nýbyggingu. Dálítið hlé sé á starfinu, meðal annars vegna fría hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjavík.

„Við tökum þetta ekki upp aftur við borgina fyrr en um eða eftir verslunarmannahelgi.“

Gert er ráð fyrir því að nýtt útisvæði við Sundhöll Reykjavíkur verði opnað í haust auk þess sem unnið er að endurbótum á gömlu byggingunni. Aðdráttaraflið í næsta nágrenni Snorrabrautar 54 er því að aukast.

„Já, þetta er mjög skemmtilegt svæði en það er að sama skapi svolítið viðkvæmt,“ segir Hilmar sem kveður málið því vera í mjög vandlegri skoðun, meðal annars með tilliti til skuggvarps. „Það voru hugmyndir en þær hafa verið að breytast í allar áttir.“

Varðandi notkunarmöguleika minnir Hilmar á að Söngskólinn í Reykjavík hafi áhuga á að vera áfram í húsinu eftir að núverandi samningi út næsta skólaár lýkur. „Þannig að við erum líka að leita í þá átt,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×