Erlent

Suður-Kórea blés til eldflaugaæfingar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá eldflaugaæfingum suður-kóreska hersins í lok ágúst síðastliðnum. Ástandið á Kóreuskaga er eldfimt í kjölfar nýjustu kjarnavopnatilraunar Norður-Kóreu.
Frá eldflaugaæfingum suður-kóreska hersins í lok ágúst síðastliðnum. Ástandið á Kóreuskaga er eldfimt í kjölfar nýjustu kjarnavopnatilraunar Norður-Kóreu. Vísir/afp
Suður-kóreski herinn hóf eldflaugaæfingu snemma á mánudagsmorgun að staðartíma. Æfingin er svar við nýjustu kjarnavopnatilraun Norður-Kóreu, þeirrar sjöttu og langtum stærstu í röðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá starfsmannastjórum ríkisstjórnar Suður-Kóreu.

Á æfingunni var eldflaugum skotið á loft frá jafnsléttu og þá voru einnig gangsettar F-15K orrustuflugvélar sem skutu á skotmörk úti fyrir austurströnd Suður-Kóreu. Gert er ráð fyrir að eldflaugar Suður-Kóreu geti náð að Punggye-ri í Norður-Kóreu, þar sem tilraunir einræðisríkisins á kjarnavopnum hafa iðulega farið fram, að því er segir í frétt bandarísku fréttastofunnar CNN.

Sjá einnig: Telur ólíklegt að átök brjótist út á Kóreuskaga að svo stöddu

Öryggisráð sameinuðu þjóðanna mun funda á morgun vegna nýjustu kjarnavopnatilraunar Norður-Kóreu. Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt tilraunirnar, þar á meðal yfirvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum.

„Ógn við Bandaríkin eða sjálstjórnarumdæmi þeirra, þar á meðal Guam, eða bandamenn okkar verður mætt með umfangsmiklum hernaðaraðgerðum, aðgerðum sem munu bæði skila árangri og reynast yfirgnæfandi,“ sagði James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, um nýja vetnissprengju Norður-Kóreu á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag.

Ástandið á Kóreuskaga er eldfimt en Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og öryggis- og varnarmálafræðingur, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að hún teldi ólíklegt að átök brytust út á Kóreuskaga að svo stöddu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×