Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2: Vika er langur tími í pólítík

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Kolbeinn Proppé og Birgitta Jónsdóttir.
Kolbeinn Proppé og Birgitta Jónsdóttir.
Miðað við fréttir undanfarinna daga virðist fátt því til fyrirstöðu að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þessir þrír flokkar hefðu þá minnsta mögulegan meirihluta á þingi. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að samkomulag hefði náðst á milli flokkanna um öll þau stóru mál sem steyttu á skeri í síðustu viðræðum sömu flokka.

Jafnframt sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í samtali við Fréttablaðið að nú ætti aðeins eftir að setjast niður og skrifa stjórnarsáttmála. Það þyrfti ekki að taka meira en tvær vikur.

Á sama tíma hafa forystumenn Vinstri grænna og Framsóknarflokks átt í óformlegum viðræðum milli jóla og nýárs um mögulegt samstarf.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að menn séu fyrst og fremst að ræða um sameiginleg stefnumál en ekki sé verið að undirbúa nýtt tilboð í stjórnarmyndun. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld verður farið yfir helstu tíðindin í pólítíkinni og síðan rætt við þau Birgittu Jónsdóttur, Pírata og Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann Vinstri grænna um stjórnarmyndun, viðræður og stemninguna þingmanna á milli nú þegar rúmir tveir mánuðir eru liðnir frá kosningum.

Kvöldfréttir Stöðvar 2 hefjast á slaginu 18.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×