„Að Unnari Steini ólöstuðum óskaði ég ekki eftir honum sem verjanda fyrir mína hönd en hann var engu að síður skipaður af Hæstarétti að ósk systkina minna. Í síðustu viku varð sátt um að Oddgeir tæki málið að sér fyrir hönd okkar allra,“ segir Júlía Marínósdóttir, dóttir Sævars, og bætir við:
„Það er fagnaðarefni að sátt hafi náðst um verjanda og málið er í góðum farvegi í höndum Oddgeirs.“
Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari, bindur vonir við að gögnum málsins verði komið til Hæstaréttar fyrir jól, en gögnin eru upp undir 20 þúsund síður.
„Svo fæ ég væntanlega frest fram í janúar til að skila greinargerð og þá kemur í ljós hvaða kröfur ég geri í málinu.“
Enn liggur þó ekki fyrir hvorir gera kröfur á undan; settur saksóknari eða verjendur dómfelldu.
„Það er mín skoðun að saksóknari eigi að gera kröfur fyrst,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, verjandi Kristjáns Viðars Viðarssonar. Hann segir þá skyldu hvíla á saksóknara að krefjast sýknu í áfrýjuðu máli telji hann menn hafa verið ranglega sakfellda í héraði.

„Pabbi barðist fyrir því alla tíð að vera hreinsaður af þessum málum. Hann fékk aldrei að lifa þann dag. Í dag berjumst við fyrir heildaruppgjöri en ekki sýndarréttarhöldum og sýknu með einu pennastriki án alvöru réttarhalda,“ segir Hafþór.