Innlent

Millilandaflugi aflýst vegna veðurs

Kjartan Kjartansson skrifar
Flug um Keflavíkurflugvöll raskast vegna veðurs í dag.
Flug um Keflavíkurflugvöll raskast vegna veðurs í dag. Vísir/Anton Brink.
Flugferðum til landsins um miðjan dag hefur verið aflýst en kröpp lægð er nú að byrja að færa sig inn yfir landið. Á vef Keflavíkurflugvallar má sjá að nítján áætluðum lendingum frá kl. 14:40 til 16:20 hefur verið aflýst. Engar upplýsingar eru enn um ferðir eftir það.

Aðeins ein vél sem átti að lenda á Keflavíkurflugvelli á þessu tímabili er skráð með áætlaðan lendingartíma, flugferða Air Iceland Connect frá Belfast sem á að lenda kl. 15:13. Öðrum ferðum hefur verið aflýst.

Af þeim nítján ferðum sem hefur verið aflýst eru átján á vegum Icelandair en ein á vegum British Airways.

Ekki kemur fram á vefsíðu flugvallarins hvað verður um ferðir frá landinu á sama tímabili.

Ekki náðist í upplýsingafulltrúa Isavia eða Icelandair strax.

Wow air hefur ekki aflýst ferðum frá landinu síðdegis en varar við því að seinkun gæti orðið á þeim og biður farþega að fylgjast með tilkynningum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×