Innlent

Garðabær neitar að taka við Álftanesvegi nema með fjárframlagi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hafist var handa við nýjan Álftanesveg árið 2014.
Hafist var handa við nýjan Álftanesveg árið 2014. vísir/vilhelm
Bæjarráð Garðabæjar hefur falið Gunnari Einarssyni bæjarstjóra að „mótmæla einhliða ákvörðun Vegagerðarinnar um yfirfærslu á veghaldi Álftanesvegar“.

Vegagerðin vísar til ákvæða vegalaga þar sem fjallað er um sameiningu sveitarfélaga. „Þegar sameining sveitarfélaga hefur þau áhrif að vegur færist úr flokki stofnvega í flokk sveitarfélagsvega skuli Vegagerðin halda veginum í að hámarki fimm ár frá sameiningu. Að þeim tíma loknum skal vegurinn afhentur sveitarfélaginu að fullu,“ segir í bréfi Vegagerðarinnar til Garðabæjar.

Eins og kunnugt er sameinuðust Garðabær og Álftanes eftir íbúakosningar haustið 2012 og tók sameiningin gildi 1. janúar 2013.

„Því er ljóst að Vegagerðin hefur ekki heimild til að halda veginum við lengur en til næstkomandi áramóta,“ segir Vegagerðin. „Garðabær annast að fullu og ber ábyrgð á veghaldi Álftanesvegar frá 1. janúar 2018.“ Um sé að ræða 4,1 kílómetra langan vegkafla með tveimur hringtorgum frá Hafnarfjarðarvegi að Bessastaðavegi.

Vegagerðin óskar eftir fundi með Garðbæingum sem fyrst til að ræða nánar málefni vetrarþjónustu og viðhald Álftanesvegarins. Bæjaráðið bendir hins vegar á að yfirfærsla vegarins eigi að gerast á grundvelli samnings milli aðila. Meðal annars þurfi að tryggja fjármagn til sveitarfélagsins vegna breytingarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×