Körfubolti

Hörður Axel gæti verið á heimleið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hörður Axel í leik með Keflavík á síðasta tímabili.
Hörður Axel í leik með Keflavík á síðasta tímabili. vísir/eyþór
Hörður Axel Vilhjálmsson gæti gengið í raðir Keflavíkur á næstu dögum samkvæmt heimildum Vísis. Hann er enn samningsbundinn BC Astana í Kasakstan en vill losna frá félaginu.

Hörður Axel var stoðsendingakóngur síðastliðins tímabils í Domino's-deildinni er hann lék með Keflavík. Hann samdi svo við Astana síðasta sumar en hefur ekki spilað með liðinu síðasta mánuðinn í VTB-deildinni eða kasösku deildinni.

Landsliðsmaðurinn hefur farið víða á ferlinum og spilað einnig í Þýskalandi, Grikklandi, Spáni, Tékklandi, Belgíu og Ítalíu. Hann var lykilmaður í liði Íslands á Eurobasket í Finnlandi í sumar.

Það yrði mikill fengur fyrir Keflavík að endurheimta Hörð Axel heim en heimildir Vísis herma einnig að það sé mögulegt að lið Keflavíkur mæti til leiks með nýjan bandarískan leikmann á nýju ári. Þar hefur Stanley Robinson ekki þótt standa undir væntingum.

Keflavík er sem stendur í sjötta sæti deildarinnar en tímabilið er nú hálfnað í Domino's-deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×