Verð hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 3,26 prósent það sem af er af degi. Nema viðskiptin 106 milljónum króna þegar þessi frétt er skrifuð. Ætla má að verkfall flugvirkja, sem hófst í gær, eigi stóran þátt í falli verðbréfanna.
Verkfallið hófst klukkan 6 í gærmorgun og hefur valdið mikilli röskun á flugi Icelandair. Það ferðast að jafnaði um 10 þúsund manns með félaginu á degi hverjum á þessum tíma árs. Alls var um tuttugu flugferðum til og frá landinu aflýst auk þess sem seinkun varð á öllum flugferðum á vegum Icelandair frá Keflavíkurflugvelli.
Fundað var fram á nótt án árangurs. Að sögn Magnúsar Jónssonar, aðstoðarsáttasemjara, áttu sér stað þreifingar í leit að sáttum án þess að lögð væri fram formleg tillaga.
