Innlent

Frændi Bjarna skemmtir skrattanum og svarar Kára fullum hálsi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Benedikt Einarsson lögmaður svarar orðum Kára Stefánssonar um frænda sinn Bjarna Benediktsson í Fréttablaðinu í dag.
Benedikt Einarsson lögmaður svarar orðum Kára Stefánssonar um frænda sinn Bjarna Benediktsson í Fréttablaðinu í dag. Vísir
„Mér finnst ólíklegt að Bjarni skemmti skrattanum og svari pistli Kára. Það ætla ég hins vegar að gera,“ skrifar Benedikt Einarsson lögmaður og frændi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í pistli sínum í Fréttablaðinu í dag. Þar svarar hann Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, fullum hálsi.

Kári skrifaði pistil í Fréttblaðið síðasta miðvikudag þar sem hann fór yfir háværa orðróma um forsætisráðherrann er varða meðal annars sölu Landsbankans á Borgun, efnahagshrunið og fyrirtæki í eigu föður hans. Benedikt segir að honum renni blóðið til skyldunnar að leiðrétta ýmislegt sem kemur fram í máli Kára.

„Það vill nefnilega svo til að í öllum fjórum gróusögunum sem Kári tínir til er vikið með einum eða öðrum hætti að föðurbróður Bjarna, þ.e. föður mínum, Einari Sveinssyni, og viðskiptum sem hann tengist. Mér rennur því blóðið til skyldunnar að leiðrétta það sem þar kemur fram, í þeirri röð sem það var skrifað.“

Ekki einfalt að svara áburði Kára

Fyrst benti Kári á kaup S-hópsins á um helmingshlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Hann sagði þjóðina hafa veirð blekkta og ef leiðtoga þjóðarinnar væri umhugað um líðan hennar þá yrði hann að fordæma hópinn eða að minnsta kosti láta í ljós skoðun sína. Sumir gruni hann um áhugaskort á pólitík. Kári sagði að margir telji þennan áhugaskort skýrast af því að fjölskylda hans hafi verið á „bólakafi í bankaskítnum,“ og það væri óheppilegt fyrir hann ef hróflað væri við málunum.

„Það er ekki alveg einfalt að svara áburði Kára um að fjölskylda okkar Bjarna hafi verið „á bólakafi í bankaskítnum“. Til þess hefði Kári mátt vera skýrari. Um aðkomu föður míns að Íslandsbanka/Glitni og brotthvarf hans get ég þó sagt að hann var stjórnarmaður í Íslandsbanka frá 1991, þar af formaður frá 2004,“ skrifar Benedikt. 

„Á aðalfundi bankans í febrúar 2007 var hann endurkjörinn í stjórn og sat áfram sem formaður. Þremur vikum eftir aðalfundinn í febrúar juku FL Group og Baugur/Stoðir við eignarhlut sinn í bankanum og vildu þeir aðilar sem að þeim félögum stóðu taka yfir stjórn bankans. Faðir minn átti ekki samleið með þeim og seldi því hlut sinn um það leyti. Hluthafafundur var svo haldinn í apríl 2007 þar sem hann gekk út úr stjórn og ný stjórn var kjörin. Glitnir var svo tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu einu og hálfu ári síðar, 7. október 2008.“

Þá víkur Benedikt að orðum Kára um nýlegar breytingar á eignarhaldi Arion banka. Kári sagði Bjarna ekki hafa gengið vasklega fram í að upplýsa um eignarhald á bankanum eftir kaup vogunarsjóða á tæplega 30 prósenta hluta hans. Sagði hann að ýmsir haldi því fram að það sé vegna þess að fjölskylda forsætisráðherrann sé að undirbúa að kaupa sig inn í bankakerfið öðru sinni, til dæmis með því að láta Borgun kaupa Íslandsbanka með aðkomu lífeyrissjóða.

„Það er makalaust að Kári skuli telja Bjarna þurfa að svara svona þvælu. Í fyrsta lagi eru þetta samhengislausar dylgjur. Í öðru lagi er fjarstæðukennt að láta sér detta í hug að Borgun, sem er að 63,5% í eigu Íslandsbanka, ætli að kaupa Íslandsbanka með aðkomu lífeyrissjóða. Sú hugmynd hefur, svo ég viti til, hvergi verið viðruð.“



Mikið gert úr hlut Einars í kaupendahóp Borgunar

Því næst rekur Kári orðróm um aðkomu Bjarna að sölu Landsbankans að Borgun. Sagan segir að kaupendur hafi fengið hlutinn fyrir slikk og að frændfólk Bjarna hafi verið þeirra á meðal. „Þetta þarftu að leiðrétta ef þess er kostur.“

Benedikt segir mikið hafa verið gert úr hlut föður síns í kaupendahóp Borgunar, en félag í hans eigu keypti um 5% hlut í Borgun. 

„Nú þegar rykið hefur sest eftir moldviðrið sem þyrlað var upp og staðreyndirnar liggja fyrir þá er öllum ljóst sem málið skoða að Bjarni hafði hvorki aðkomu né vitneskju um fjárfestingu föður míns. Bjarni, þá sem fjármálaráðherra, hafði heldur ekkert um sölu á hlut bankans í Borgun að segja. Ákvörðun um slíkt var einungis á forræði bankastjóra og bankaráðsins,“ skrifar Benedikt. 

Hann tekur þó undir að margt megi gagnrýna við hvernig Landsbankinn stóð að söluferlinu, það hafi þó verið ákvörðun bankans en ekki kaupenda. 

„Hvað snýr að kaupverði hlutanna í Borgun þá hafði hvorki ég né faðir minn neina aðkomu að samningaviðræðum við bankann. Í október 2014 fengum við kynningu hjá forsvarsmanni fjárfestahópsins þar sem okkur var kynnt verkefnið, en undirbúningur kaupanna hafði þá staðið yfir frá því í mars sama ár. Á þeim tíma sem við fengum kynninguna lá verðið og kaupsamningur fyrir og beðið var endanlegrar staðfestingar bankaráðs. Fjárfestahópurinn var á þessum tíma enn í mótun og faðir minn var beðinn um að taka þátt í kaupunum, sem og hann gerði.“

Sögurnar um Kynnisferðir dylgjur

Fjórða sagan sem Kári rekur varðar rútufyrirtækið Kynnisferðir sem er í meðal annars í eigu föður Bjarna. Kári segir þá sögu ganga að ekkert rútufyrirtæki hafi notið meiri undanþágu frá fullum virðisaukaskatti en Kynnisferðir.

Þá segir hann fyrirtækið hafa einkaleyfi á akstri flugrútunnar og að það leyfi hafi fengist hjá Isavia þar sem náinn fjölskylduvinur þeirra sé stjórnarformaður og á þar við Ingimund Sigurpálsson.

„Þessum dylgjum er auðsvarað. Það er rangt sem Kári heldur fram að einkaleyfi sé á akstri flugrútunnar. Sérleyfi á akstri flugrútunnar var við lýði þar til það var afnumið árið 2011 og í kjölfarið fór annað rútufyrirtæki, Allrahanda, að bjóða upp á akstur á sömu leið í beinni samkeppni við Kynnisferðir. Flugrútan og önnur ferðaþjónusta, nema hótel og bílaleigur, var undanþegin virðisaukaskatti þar til 1. janúar 2016 þegar sú starfsemi var sett í 11% virðisaukaskattþrepið. Þegar sú skattskylda var innleidd var Bjarni nokkur Benediktsson fjármálaráðherra. Það er því fjarri lagi að Kynnisferðir hafi notið forréttinda umfram aðra í ferðaþjónustu.“


Tengdar fréttir

Með rauðum penna

Bjarni, mig hefur lengi langað til þess að tjá þér aðdáun mína á því hvernig þú hefur tekið því þegar ég hef dregið þig yfir naglabrettið í skrifum mínum. Ég hef hætt þig, gert grín að þér, ásakað þig um ljóta hluti og gert lítið úr þér og stundum hefur mér tekist ágætlega upp við þá iðju. Undantekningalaust hefur þú tekið þessu með bros á vör.

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann

Í Fréttablaðinu á miðvikudaginn síðastliðinn skrifaði Kári Stefánsson enn einn pistilinn þar sem hann beinir spjótum sínum að Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. Kári byrjar pistil sinn á að hreykja sér af því að hafa í fyrri skrifum sínum dregið Bjarna yfir naglabrettið, gert að honum grín, ásakað um ljóta hluti og gert lítið úr honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×