Innlent

Íslenskur bílstjóri rútunnar meðal hinna slösuðu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag. Vísir/Vilhelm
Íslenskur bílstjóri rútunnar, sem ekið var aftan á fólksbíl og fór út af veginum vestur af Kirkubæjarklaustri í morgun, er á meðal hinna slösuðu. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við Vísi.

Frekari upplýsingar um líðan þeirra tólf, sem fluttir voru alvarlega slasaðir með þyrlum af vettvangi, liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Búið er að taka skýrslu af bílstjóra fólksbifreiðarinnar og farþega hennar, ferðamönnum frá Litháen, en þeir slösuðust ekki alvarlega.

Enn er verið að vinna á vettvangi og gerir Oddur ráð fyrir að Þjóðvegur 1 við Klaustur verði lokaður eitthvað fram yfir 19 í kvöld. Hjáleið er um Meðallandsveg.

Rúta með 44 kínverska ferðamenn innanborðs fór útaf veginum og valt eftir árekstur við fólksbíl á Suðurlandsvegi um sex kílómetra vestur af Kirkjubæjarklaustri rétt upp úr klukkan ellefu í morgun. Ökumaður fólksbílsins, ferðamaður frá Litháen, var að beygja inn á útsýnisstað vestan Hunkubakka þegar rútan lenti aftan á bifreiðinni og síðan norður fyrir veg og valt þar á hliðina.

33 einstaklingar voru fluttir af slysstað í fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri. Tólf voru fluttir með þyrlum af vettvangi alvarlega slasaðir og eru þyrlurnar lentar í Reykjavík. Einn er látinn.

Uppfært klukkan 19:02:

Í fyrri útgáfu þessarar fréttar var bílstjóri rútunnar sagður alvarlega slasaður. Dóttir bílstjórans hafði samband við fréttastofu og sagði meiðsli hans ekki alvarleg.

 

Gert er ráð fyrir að Þjóðvegur 1 við Klaustur verði lokaður eitthvað fram yfir 19 í kvöld.Vísir/map.is
Fylgst var með nýjustu vendingum jafnóðum í vaktinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×