„Þetta er þriðja árið sem við látum taka mynd af okkur með jólasveininum í Tívolíinu. Í fyrra vorum við með hauskúpur málaðar framan í okkur og núna ákváðum við að vera trúðurinn Pennywise úr IT,“ segir Gúrý.
Þau Gúrý og Jónas hafa búið í Danmörku um langt árabil. Á vinnustofu sinni hafa þau meðal annars unnið að skartgripalínum sínum Breki og Zero6. Breki er þekktur fyrir hauskúpuhringa sína sem eru áhugamál allrar fjölskyldunnar.

Þau vöktu að vonum mikla athygli. Sumum var nokkuð brugðið og Gúrý segir að eitthvað hafi verið um skelkuð börn. Tívolígestir voru ekki síður hissa og einhverjir bentu þeim á að Hrekkjavakan væri löngu liðin.
„Jólasveinninn var sá sami og í fyrra og hann þekkti okkur aftur og tók Halloween-fjölskyldunni fagnandi. Krakkarnir eru með okkur í þessu af lífi og sál og skólasystkin Ísabellu, dóttur okkar, öfunda hana af því hversu fjölskyldan er öðruvísi. Ég held það sé alveg óhætt að segja að við séum ekki hefðbundin fjölskylda,“ segir Gúrý og bætir við að Addams-fjölskyldan sé í miklu uppáhaldi hjá þeim.
Gúrý segir vini og vandamenn vera farna að reikna með einhverju gráu gríni í jólakortum fjölskyldunnar, ef ekki beinlínis farna að ætlast til þess. Þetta er því orðin jólahefð og hverju sem þau taka upp á að ári segir hún öruggt að útlitið á þeim verði skuggalegt.
Börnin hafa erft hauskúpuáhugann frá foreldrunum. Ísabella byrjaði að hanna hringa með pabba sínum fyrir nokkrum árum og hefur þegar gert tvær línur. „Hún er með annan fótinn í þessu og Breki litli er að gera sína fyrstu hauskúpulínu. Hann er enn að æfa þolinmæðina sem þarf í þetta enda er hann bara sex ára.“