Innlent

Óhreinsað skólp flæðir út í sjó við Faxaskjól

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skólphreinsistöðin við Faxaskjól.
Skólphreinsistöðin við Faxaskjól. Reykjavik.is
Á hverri sekúndu flæða nú 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi út í hafið við Faxaskjól í Vesturbæ Reykjavíkur. Skólpið hefur flætt í 10 sólahringa en skólpdælustöðin á svæðinu er biluð. Óvíst er hvenær viðgerð á stöðinni lýkur.

Þetta kom fram í frétt Ríkisútvarpsins í gær en þar segir að bilun í neyðarlúgu hafi orðið til þess að skólp úr stórum hluta húsa flæðir nú óhreinsað út í fjöruna.

„Af tvennu illu þá töldum við það skárri kost að hafa lúguna opna þannig að það væri ekki möguleiki á því að skólpið myndi fara uppí kerfið og flæða inn til fólks. Því það væri möguleiki,“ sagði Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í samtali við RÚV.

Um er að ræða alvarlegustu og lengstu bilun sem orðið hefur á skólphreinsikerfinu frá upphafi. Nú stendur til að taka aftur sýni úr sjónum við Faxaskjól en gildi úr sýnum, sem tekin voru í júní, voru undir þeim mörkum sem sett eru við baðstaði í náttúrunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×