
Þá segir hún að víða þekkist það sem á íslensku útleggst sem hinseginbæling barna, en er í daglegu tali kallað afhommun. „Ég hef ekki áhyggjur af því að á Íslandi yrði skorin upp herör gegn samkynhneigð og hér yrði stunduð afhommun og aflessun. Við erum komin lengra en það. En það er réttindabaráttan sem kom okkur þangað, ekki þekking á erfðafræðinni. Við það að við getum vitað kyn barna fyrir fæðingu hefur ekki unnist einn einasti áfangasigur í réttindabaráttu kvenna.“
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að afstaða samtakanna þýði að ekkert verði af rannsókninni. „Þar sem þetta eru samtök sem hlúa að fólki sem hefur átt undir högg að sækja í íslensku samfélagi, þá finnst mér alveg sjálfsagt að virða það. Við ráðumst í ekkert af þessari gerð gegn vilja samtakanna.“
Hann segir að rannsóknin hefði þó ekki verið neitt ólík þeim rannsóknum sem alla jafna eru gerðar hjá Íslenskri erfðagreiningu. „En hún lýtur að tiltölulega viðkvæmu máli sem er „sexual orientation“. Ekki má þó gleyma því að allar tilfinningar eiga rætur sínar í heilanum. Heilinn, eins og öll önnur líffæri, er búinn til á grundvelli upplýsinga sem liggja í DNA. Öll hegðun lýtur þannig að mörgu leyti sömu lögmálum og blóðþrýstingur, hæð og líkamsþyngd. Ég veit að það er ekki mjög rómantísk sýn á lífið en svona er það bara.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.