Erlent

Comac-þotan svar Kínverja gegn veldi Airbus og Boeing

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fyrsta stóra farþegaþota Kínverja fór í jómfrúarflug sitt í dag en henni er ætlað að keppa við flugrisana Airbus og Boeing. Fyrsta flugtakið má sjá í frétt Stöðvar 2 í spilaranum hér að ofan. 

Þotan heitir Comac C-919, er tveggja hreyfla, og í dag var komið að stóru stundinni; að taka hana á loft í fyrsta sinn. Smíði þotunnar markar þáttaskil í flugvélaiðnaði Kínverja en þeir hafa sett sér það langtímamarkmið að brjóta upp tvíokun Boeing og Airbus á flugvélamarkaði heimsins og heyrðust fagnaðaróp þegar vélin lyftist af brautinni í Sjanghæ. 

Comac-þotunni er ætlað að bera allt að 190 farþega en hún er sambærileg nýjustu Boeing 737 og Airbus A-320 þotunum. Mikill áhugi virðist meðal flugfélaga sem hafa þegar lagt inn pantanir í yfir 500 eintök samtals. 

Fimm manna áhöfn var í þessu fyrsta tilraunaflugi sem stóð yfir í 80 mínútur og virðist hafa heppnast vel. Kínverjar hyggjast verja næstu þremur árum til flugprófana á vélinni en áætlað er að hún fari í almenna notkun árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×