Innlent

Umhverfisráðherra vill ná loftlagsmarkmiðum á undan áætlun

Heimir Már Pétursson skrifar
Í samkomulaginu sem forsætisráðherra, umhverfisráðherra, fjármálaráðherra, sjávarútvegs -og landbúnaðarráðherra, iðnaðarráðherra og samgönguráðherra skrifuðu undir í dag, er gert ráð fyrr að ráðuneytin vinni saman að aðgerðaráætlun í loftlagsmálum með aðkomu stjórnarandstöðu og hagsmunaaðila.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra er bjartsýn á framgang áætlunarinnar.

Hvenær teljið þið að að við getum náð þessum Parísar markmiðum?

„Nú fer af stað þessi vinna um að setja niður markmið og setja niður mælikvarðana. Þannig að ég vil aðeins fá að leyfa því að gerast. En auðvitað viljum við ná markmiðunum sem fyrst. Ekki seinna en 2030. Það er alveg á hreinu. En það verður bara aðeins að fá að vinnast áður en ég svara því nákvæmlega,“ segir Björt.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna að lagningu borgarlínu sem kosta mun allt að 100 milljarða og ætlað er að draga úr bílaumferð. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir ríkisstjórnina jákvæða gagnvart því verkefni.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa óskað eftir aðkomu ríkisins að borgarlínu. Þar eru nefndar stórar upphæðir. Er ríkisvaldið tilbúið að koma að því verkefni?

„Það er auðvitað þannig að það þarf peninga til að bæta lífsgæðin. En .að er eitt af því sem gerist til framtíðar. Eins og umhverfisráðherra benti á er þetta eitt af málunum sem við erum að skoða og höfum skuldbundið okkur til að skoða í stjórnarsáttmálanum og viljum gjarnan gera það. En þetta mál er skammt á veg komið. Það er rétt að leggja áherslu á það. En við viljum skoða það mjög gaumgæfilega og sjáum í því tækifæri,“ segir Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×