Theresa May, forsætisráðherra Bretland og formaður Íhaldsflokksins, er komin af fundi Elísabetar II Englandsdrottningar en þangað fór hún klukkan 11.30 að íslenskum tíma til að fá umboð til að mynda ríkisstjórn.
Fundur þeirra stóð í um 20 mínútur og þegar May kom af honum sagði hún að hún ætlaði að mynda ríkisstjórn sem myndi tryggja stöðugleika og vinna að því að Bretland yrði áfram öruggt land.
May hyggst mynda minnihlutastjórn með stuðningi Lýðræðislega sambandsflokknum (DUP) á Norður-Írlandi sem náði tíu mönnum á þing í kosningunum í gær.
Íhaldsflokkurinn missti meirihluta sinn á þingi og er talið að hann fái nú 319 þingsæti en 326 þingsæti þarf til að vera með meirihluta á þingi.
Saman verða íhaldsmenn og DUP því með 329 þingmenn en talið er að May myndi ríkisstjórn með ráðherrum úr röðum Íhaldsflokksins og geri einhvers konar óformlegt samkomulag við DUP um að þeir styðji minnihlutastjórn í atkvæðagreiðslum á þingi.
