Fótbolti

Hannes: Hugur í okkur að jafna sakirnar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hannes Þór fyrir æfingu í dag.
Hannes Þór fyrir æfingu í dag. vísir/ernir
„Það er hætt við því að það verði eitthvað sem komi á markið,“ segir markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson en hann mun væntanlega standa í ströngu í leiknum gegn Króatíu á sunnudag.

„Tölfræðin sýnir að þeir munu fá einhver færi á okkur og þeir eru það góðir að ég reikna með því. Þá er bara að vera klár. Þeir voru ekki að komast mikið í gegnum okkur síðast og vonandi verðum við áfram þéttir,“ segir Hannes en flest skot Króata í leiknum ytra voru langskot.

„Það var leikur sem við hefðum getað fengið eitthvað út úr. Það var lag. Við vorum í stuði og þeir ekki alveg upp á sitt besta og með Modric á bekknum. Það var því svekkjandi að fá ekkert út úr þeim leik. Það sýndi okkur að við eigum möguleika ef hlutirnir falla með okkur.“

Hannes hélt hreinu í síðasta leik í Laugardalnum og segir að allt sé hægt þegar stemningin er hvað best.

„Vonandi fáum við mikinn meðbyr í leiknum. Þá munum við finna loksins glufur á þeirra varnarleik. Það er alltaf erfitt að glíma við þetta lið. Þetta er frábært lið en það hefur byggt upp hungur að leggja þá loksins að velli eftir síðustu leiki. Við eigum slæmar minningar frá Zagreb og það er mikill hugur í okkur að jafna aðeins sakirnar. Það verður samt gríðarlega erfitt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×