Erlent

Corbyn: „Það er nokkuð ljóst hverjir unnu þessar kosningar“

Atli Ísleifsson skrifar
Jeremy Corbyn er formaður Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn er formaður Verkamannaflokksins. Vísir/AFP
Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, segir flokkinn reiðubúinn að þjóna Bretum með myndun minnihlutastjórnar og án þess að semja sérstaklega fyrirfram við aðra flokka. Hann segir að „flokkurinn sem tapaði þessum kosningum sé Íhaldsflokkurinn.“

Corbyn segir að tími sé kominn fyrir breytingar og þingflokkur Verkamannaflokksins hafi verið kjörinn til að binda enda á aðhaldsaðgerðir.

Í viðtali við Sky segir Corbyn að hann sé reiðubúinn að leggja tillögur Verkamannaflokksins varðandi breska heilbrigðiskerfið, menntakerfið og lífeyriskerfið fyrir þingið.

Hann segir að viðræður um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu séu áfram á dagskrá en að í þeim vilji hann leggja áherslu á að tryggja atvinnu Breta og góðan viðskiptasamning við sambandið. Þá vilji hann tryggja réttindi ríkisborgara ESB-ríkja sem búa í Bretlandi.

Corbyn tjáði sig einnig um stöðu Theresu May forsætisráðherra. „Í kosningabaráttunni barðist hún á þeim forsendum að þetta var hennar kosningabarátta, ákvörðunin um að boða til kosninga hafi verið hennar, nafn hennar hafi verið lagt undir og að hún gerði þetta til að koma á sterkri og stöðugri ríkisstjórn. Nú í morgun lítur þetta ekki út fyrir að vera sterk ríkisstjórn, lítur þetta ekki út fyrir að vera stöðug ríkisstjórn, lítur ekki út fyrir að vera ríkisstjórn með neina stefnu.“

Þegar búið er að kynna niðurstöður kosninga í langfelstum kjördæmum er ljóst að Íhaldsflokkurinn hafi misst meirihluta sinn. Í morgun hafa fjölmiðlar greint frá því að Íhaldsmenn og þingmenn Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) muni hefja viðræður um myndun nýrrar stjórnar. Verkamannaflokkurinn stefnir hins vegar að myndun minnihlutastjórnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×