Innlent

Bókhald ráðuneytanna opnað almenningi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Upplýsingar um viðskipti ágústmánaðar hafa þegar verið birtar.
Upplýsingar um viðskipti ágústmánaðar hafa þegar verið birtar. Skjáskot
Almenningur getur nú skoðað yfirlit greiddra reikninga úr bókhaldi ráðuneyta í rauntíma á vefnum opnirreikningar.is.

Vefnum, sem verður uppfærður mánaðarlega, er ætlað að veita einfalda og skýra mynd af viðskiptum ráðuneyta með því að birta yfirlit yfir greidda reikninga.

Hægt er að skoða viðskipti út frá stofnunum, birgjum, tegund kostnaðar og tímasetningu. Upplýsingar um viðskipti ágústmánaðar hafa þegar verið birtar.

Upplýsingar um útgjöld til einstakra verkefna

Í frétt á vef ríkisstjórnarinnar segir að um sé að ræða skref í átt til aukins aðgengis að fjárhagsupplýsingum er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um bætt viðmót og aðgengi að stjórnsýslu.

Gert er ráð fyrir að stofnanir í A-hluta ríkissjóðs komi inn í verkefnið í áföngum. Þegar verkefnið verður að fullu komið til framkvæmda nemur heildarumfang upplýsinga á vefnum um 45 milljörðum króna á ári.

Þá er einnig unnið að því að birta mánaðarlegt bókhald ríkisins, ráðuneyta og stofnana með skýrum og myndrænum hætti. Með þeirri birtingu verður almenningi gert kleyft að skoða gjöld og tekjur út frá ráðuneytum, stofnunum eða málefnasviðum, allt niður á einstök verkefni. Hægt verður að skoða raunútgjöld og bera saman við áætluð útgjöld í fjárlögum ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×